Mjólkursamsalan dæmd til að greiða 480 milljónir

Mjólkursamsalan.
Mjólkursamsalan. mbl.is/Kristinn

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Mjólkursamsölunni beri að greiða 480 milljónir króna til ríkisins. Þarf félagið að greiða 440 milljónir vegna mis­notk­un­ar á markaðsráðandi stöðu með því að selja keppi­naut­um sín­um grund­vall­ar­hrá­efni, hrámjólk, til fram­leiðslu á mjólk­ur­vör­um á mun hærra verði en MS sjálf og tengd­ir aðilar, Kaup­fé­lag Skag­f­irðinga og dótt­ur­fé­lög, þurftu að greiða. Þar að auki var fé­lagið dæmt til að greiða 40 millj­ón­ir vegna brota á upp­lýs­inga­skyldu sam­keppn­islaga með því að halda mik­il­vægu gagni frá Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu.

Í dómi Landsréttar segir að ljóst væri að Mjólkursamsalan væri í markaðsráðandi stöðu og hefði selt KS hrámjólk á allt að 17% lægra verði en öðrum aðilum. „Sama varan hefði því verið seld ólíkum aðilum á mjög mismunandi verði sem hefði veikt samkeppnisstöðu þeirra sem hærra verðinu sættu. Ekki væru fyrir hendi hlutlægar ástæður er réttlættu verðmismuninn. Taldi Landsréttur ótvírætt að MS ehf. hefði með háttsemi sinni brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga,“ segir í útdrætti dómsins.

Í dóminum segir jafnframt að telja verði að brot Mjólkursamsölunnar sé alvarlegt auk þess sem það hafi staðið lengi og verið „augljóslega mjög til þess fallið að raska samkeppnisstöðu.” Þá hafi brotið lotið að mikilvægri neysluvöru og snert á þann hátt allan almenning á Íslandi. Er því fallist á með héraðsdómi að 440 milljónir séu æskileg sektargreiðsla.

Málið kom upphaflega upp þegar Mjólkurbúið KÚ sendi athugasemd til Samkeppniseftirlitsins árið 2012 um þann mun sem væri á verði sem KÚ þyrfti að greiða fyrir hrámjólk samanborið við KS. Hafði KÚ af misgáningi fengið sent reikning sem hafði átt að fara á Mjólku, en Ólafur M. Magnússon, forsvarsmaður KÚ, hafði áður stofnað Mjólku, en það var á þessum tíma komið í eigu KS.

Rannsókn eftirlitsins stóð til september 2014, en þá var Mjólkursamsölunni gert að greiða 370 milljónir í stjórnvaldssekt vegna málsins. Var ákvörðunin kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi ákvörðunina úr gildi og lagði fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið frekar. 

Að aflokinni frekari rannsókn lagði eftirlitið að nýju stjórnvaldssekt á Mjólkursamsöluna, en nú upp á 480 milljónir samtals, líkt og um ræðir í dóminum. Aftur kærði Mjólkursamsalan ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og aftur felldi nefndin sektina niður, að öðru leyti en að Mjólkursamsalan skyldi greiða 40 milljónir vegna brota á upplýsingarskyldu. Klofnaði nefndin í málinu og vildi einn nefndarmaður staðfesta sektina.

Mjólkursamsalan kærði málið til dómstóla og kærði Samkeppniseftirlitið einnig fyrirtækið og óskaði eftir að niðurstaðan væri staðfest. Hafa nú bæði héraðsdómur og Landsréttur staðfest sektirnar, samtals að upphæð 480 milljónir.

Dómur Landsréttar

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert