Matvælastofnun varar við röngum og villandi upplýsingum sem hafa birst varðandi vörur sem eiga að styrkja ónæmiskerfi líkamans og koma meðal annars í veg fyrir sýkingar af völdum kórónuveirunnar.
„Undanfarna daga hefur borið á því í fjölmiðlum, auglýsingum og á samfélagsmiðlum að kynntar séu ýmsar vörur sem eiga að styrkja ónæmiskerfi líkamans og koma í veg fyrir sýkingar, m.a. af völdum kórónaveira. Slíkar upplýsingar eða staðhæfingar eru rangar og villandi fyrir neytendur og Matvælastofnun varar við slíkum upplýsingum.
Fæðubótarefni eru matvæli og ekki má eigna þeim þá eiginleika að fyrirbyggja sýkingar eða lækna sjúkdóma. Þetta gildir einnig um matvæli almennt.
Það er vissulega rétt að virkt ónæmiskerfi skiptir höfuðmáli til að verjast sýkingum en það er engin ofurfæða eða fæðubótarefni sem geta komið í veg fyrir sýkingu af völdum kórónaveira. Góð næring skiptir miklu máli fyrir eðlilega starfsemi ónæmiskerfisins en langflestir hérlendis uppfylla næringarþarfir sínar með góðu og fjölbreyttu fæði. Á vef landlæknis má finna upplýsingar um mikilvægi góðrar næringar fyrir heilsu.
Besta leiðin til að verja sig gegn kórónaveirunni er fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis varðandi handþvott, hósta eða hnerra í olnbogabótina og takmarka náin samskipti s.s. handabönd og faðmlög.
Einnig er nú sem endranær rétt að benda á leiðbeiningar Matvælastofnunar um meðhöndlun matvæla við matargerð og spurt og svarað um COVID-19 og matvæli,“ segir á vef Matvælastofnunar.