Segir neyðarástand ríkja hjá SÁÁ

Yfirlæknir á Vogi hefur sagt upp störfum.
Yfirlæknir á Vogi hefur sagt upp störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður SÁÁ segist ekki hafa átt í deilum við Valgerði Á. Rúnarsdóttur, yfirlækni á Vogi, sem hefur sagt upp störfum á sjúkrahúsinu. Fram kom í Morgunblaðinu í morgun að samkvæmt heimildum hafi andað köldu á milli þeirra í langan tíma. Hann segir að algjört neyðarástand ríki hjá SÁÁ vegna áhrifa af völdum kórónuveirunnar.

„Við erum bara góðir vinir. Þetta er kjaftasaga,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, um að andað hafi köldu á milli þeirra Valgerðar og bætir við að enginn faglegur ágreiningur hafi verið uppi á milli þeirra. Hann segir uppsögn hennar hafa komið sér á óvart. „Hún er frábær fagmaður og búin að vinna gott starf hjá SÁÁ lengi, Það er slæmt að missa hana ef það gengur eftir.“

Þórarinn Tyrfingsson.
Þórarinn Tyrfingsson. mbl.is/Eggert

Þórarni Tyrfingssyni sagt upp

Að sögn Arnþórs ríkir algjört neyðarástand hjá SÁÁ vegna áhrifa af völdum kórónuveirunnar. Framkvæmdastjórn samtakanna ákvað að lækka starfshlutfall hjá öllum starfsmönnum niður um 20%, auk þess sem átta starfsmönnum var sagt upp, mestmegnis sálfræðingum. Öflugu starfsfólki sem var komið á aldur var einnig sagt upp, þar á meðal Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi yfirlækni á Vogi og formanni SÁÁ. „Það var mjög sárt líka. Þetta voru menn með áratuga reynslu, kunnáttu og þekkingu. Það er mjög vont að missa þá,“ segir Arnþór og bætir við að ríkið borgi ekkert fyrir sálfræðiþjónustuna sem er veitt hjá SÁÁ. Hún sé öll í boði samtakanna og því kostnaðarsöm.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Álfasalan frestast

„Við erum að fá rosalegt högg“ segir Arnþór um starfsemi SÁÁ eftir að kórónuveiran braust út. Hann segir samtökin bundin af fjórum þjónustusamningum sem Sjúkratryggingar Íslands gera við þau og skyldur samtakanna séu fyrst og fremst við þá kjarnastarfsemi. Einnig nefnir hann þær fjáraflanir sem SÁÁ efnir til, þar á meðal álfasöluna, og tekjumissi í kringum þær. Álfasalan muni ekki fara fram á þeim tíma sem venjan er vegna veirunnar. Framlög úr styrktarsjóðum hafa einnig verið að lækka og talar hann um dvínandi tekjur vegna starfsemi Íslandsspila. Hann segir samtökin veita mun meiri þjónustu sem standi utan við þjónustusamninga.

„Okkar styrkleiki er að við njótum mikils trausts og erum með sjálfsaflað fé sem er nánast horfið í einni svipan. Þetta er mjög erfið og þung ákvörðun að taka en hún er samt rétt,“ segir hann um uppsagnirnar og skerðingu starfshlutfalls. „Þarna er þjónusta sem þú átt ekki peninga til að borga sjálfur og þá verðurðu að hætta henni. Að öðrum kosti ferðu á hausinn.“

Valgerður Á. Rúnarsdóttir hefur sagt upp störfum.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir hefur sagt upp störfum. mbl.is/Árni Sæberg

Fór ekki inn á svið Valgerðar

Valgerður sagðist við mbl.is í morgun vera ósátt við að hægt sé að taka ákvarðanir sem snúa að faglegum málefnum án þess að eðlileg samskipti séu við stýrendur í meðferð. Sagði hún Arnþór hafa lagt fram tillögu sem hann hafi fengið samþykkta. „Það er spurning um hvaða völd hann á að hafa inni í meðferðinni í faglegum málum,“ sagði hún.

Arnþór segir ákvörðunina um uppsagnirnar og skert starfshlutfall hafa verið teknar af framkvæmdastjórn og að enginn ágreiningur hafi verið uppi um hana. „Þetta var mjög erfið og þung ákvörðun en hún er rétt. Við munum ekki fara á hausinn. Við munum starfa áfram og ég heiti á allt stuðningsfólk okkar að standa með okkur,“ greinir hann frá. Hann kveðst ekki hafa farið inn á svið Valgerðar. „Hún er fagmaður og ábyrg og vinnur út sinn uppsagnarfrest. Framtíðin er öll í hnút en ég var ekki að fara inn á hennar svið. Ég skipti mér ekkert af því,“ segir hann.

mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert