Höskuldur Daði Magnússon
Sífellt fleiri sveitarstjórnir og nefndir sveitarfélaga notast nú við fjarfundabúnað á fundum sínum. Alþingi samþykkti nýverið breytingar á sveitastjórnarlögum sem veitir sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við því neyðarástandi sem skapast hefur af völdum kórónuveirunnar.
Hafa sveitarstjórnir heimild fram á sumar til að notast við fjarfundabúnað, að ákveða að valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en vant er og að leyfi verði til að afgreiða tiltekin mál með einfaldari hætti en alla jafna er gerð krafa um.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að mjög víða sé farið að notast við fjarfundabúnað og það muni aukast til muna á næstunni. „Það eru allir að fikra sig áfram við þetta og koma sér upp reglum hvernig haga eigi fundum með þessum hætti. Með þessu er fyrst og síðast verið að sjá til þess að sveitarstjórnir séu starfhæfar. Það er ekki forsvaranlegt að stefna fólki saman núna,“ segir Aldís í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.