Umsóknir hrúgast inn hjá Vinnumálastofnun

Mikið álag er á starfsfólki Vinnumálastofnunar vegna umsókna um úrræði …
Mikið álag er á starfsfólki Vinnumálastofnunar vegna umsókna um úrræði á vinnumarkaði. mbl.is/​Hari

Yfir 14 þúsund umsóknir hafa borist um minnkað starfshlutfall til Vinnumálastofnunar. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að þar sé allt vitlaust að gera og allt á hvolfi. „Síminn stoppar ekki hjá stofnuninni og því miður hafa safnast upp tölvupóstar þar sem við náum ekki að halda í við hann,“ segir Unnur en vonir standa til að það takist að grynnka á bunkanum um helgina.

Starfsfólk Vinnumálastofnunar mun vinna alla helgina við að fara í gegnum umsóknirnar og segir Unnur stofnunina hafa yfir að ráða stórkostlegu og samstilltu starfsfólki sem leggi sig óendanlega fram við að sinna þeim sem þangað leita.

„Það er mjög leiðinlegt að þetta sé svona þegar fólk er að senda tölvupósta en við verðum að biðja fólk um að sýna þessu skilning. Þetta er svo svakalegt magn umsókna,“ segir Unnur í samtali við mbl.is en rúmir tveir sólarhringar eru liðnir frá því byrjað var að taka við umsóknum.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti á föstudag frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um rétt til greiðslu at­vinnu­leys­is­bóta sam­hliða minnkuðu starfs­hlut­falli vegna tíma­bund­ins sam­drátt­ar í starf­semi vinnu­veit­enda, svokallaða hlutastarfaleið. Flestar umsóknir sem hafa borist miða við að minnka starfshlutfall um hámarkið, en samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 25 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Hafi starfsmaður verið með 400 þúsund krónur eða minna í laun fyrir 100% starf fær hann skerðinguna að fullu bætta.

81 prósent þeirra sem sótt höfðu um úrræðið um miðjan dag í gær eru íslenskir ríkisborgarar, 8 prósent eru pólskir ríkisborgarar og um 11 prósent eru af öðru þjóðerni. Þetta er svipuð dreifing og á íslenskum vinnumarkaði í heild. Meira en helmingur umsækjenda kemur úr ferðaþjónustutengdum greinum, flestir úr flugrekstri, gisti- og veitingaþjónustu. 

Klukkan 14 í gær voru umsóknirnar tæplega 10 þúsund talsins og þá höfðu 48 fyrirtæki samið um minnkað starfshlutfall við fleiri en 20 starfsmenn. Þrjú fyrirtæki hafa samið um minnkað starfshlutfall við 100 starfsmenn eða fleiri.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra,.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra,. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er gríðarlega mikilvægt að við spornum við miklu atvinnuleysi í kjölfar COVID-19 faraldursins og markmið okkar með þessari lagasetningu er að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt. Lögin eru tímabundin og gilda út maí en við erum tilbúin að bregðast frekar við ef þess verður þörf.

Unnur segir að ansi margir hafi sótt um atvinnuleysisbætur í mars en þeim hefur verið sagt upp áður en kórónuveiran fór að herja á landið. Þeim sem er sagt upp núna eiga rétt á launum í uppsagnartíma og koma ekki inn í kerfið hjá Vinnumálastofnun fyrr en í fyrsta lagi eftir einn mánuð.

„Við erum að fara inn í þetta ástand — efnahagsdýfu — þannig að það er að koma inn fólk sem hefur misst vinnuna undanfarna mánuði,“ segir Unnur. Eins hafa borist hópumsagnir fyrirtækja og gætu bæst við fyrir mánaðamót.

Dæmi eru um að atvinnurekendur hafi lækkað starfshlutfall starfsmanna en krefjist vinnuframlags umfram hið nýja hlutfall. Ábendingar um þetta hafa borist BHM og BSRB, sem og aðildarfélögum bandalaganna. 

Unnur beinir því til fólks að leita til sinna stéttarfélaga vegna þessa því þetta er alls ekki tilgangurinn með úrræðinu.

„Þetta er úrræði fyrir fyrirtæki vegna samdráttar í rekstri og ástæðan fyrir því að þetta er sett á er sú að störfin eru farin. Þetta hljómar mjög illa,“ segir Unnur og bendir á að þetta er brot á lögunum líkt og BSRB og BHM hafa bent á.

„Þetta gengur þvert gegn lagabreytingum sem Alþingi gerði nýverið til að auðvelda atvinnurekendum að halda starfsfólki og koma í veg fyrir uppsagnir vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa af völdum COVID-19 heimsfaraldursins.

Atvinnurekendur geta nú lækkað starfshlutfall allt niður í 25 prósent og getur starfsfólkið fengið hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti. Óheimilt er að krefjast vinnuframlags frá starfsfólki umfram hið nýja starfshlutfall, enda kemur lækkunin til vegna samdráttar í þjónustu fyrirtækja og fækkunar verkefna.

BHM og BSRB hvetja stjórnendur fyrirtækja og stofnana til að fara í einu og öllu eftir lögunum og munu bregðast hart við ábendingum um brot. Þá minna heildarsamtökin á að þessum lagaheimildum er ætlað að hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaði á þessum erfiðu tímum. Þegar þessum tímabundnu þrengingum lýkur munu fyrirtækin þurfa aftur á sínum starfsmönnum að halda í hærra starfshlutfalli.

Það er með öllu óviðunandi að fyrirtæki reyni að nýta sér aðstæður starfsmanna sem eru að leggja sitt af mörkum til að vinnustaðurinn komist í gegnum tímabundna erfiðleika með því að taka á sig kjaraskerðingu,“ segir í yfirlýsingu frá BHM og BSRB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert