Stefán E. Stefánsson
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, tilkynnti stjórn SÁÁ í gær að hún hygðist láta af störfum. Ástæðan er sögð vera djúpstæður ágreiningur við formann samtakanna, Arnþór Jónsson.
Er mikill kurr í stjórn samtakanna vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og segja heimildarmenn Morgunblaðsins meirihluta stjórnar ósáttan við hvernig mál hafi þróast að undanförnu.
Lengi hafi andað köldu milli formannsins og yfirlæknisins en að átök um skipulagsbreytingar sem ákveðið hafi verið að ráðast í á stjórnarfundi á miðvikudag hafi reynst kornið sem fyllti mælinn.
Að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins hefur ágreiningurinn átt sér ýmsar birtingarmyndir en náði hámarki í gær í kjölfar þess að stjórn SÁÁ fundaði á miðvikudag og ákvað að ráðast í umtalsverðar breytingar á rekstri Vogs, Eftirmeðferðarstöðvarinnar Víkur á Kjalarnesi og göngudeilda sem samtökin reka, ekki síst vegna þeirra áskorana sem mæta samtökunum í kjölfar þess að kórónuveiran setti allt úr skorðum, bæði í íslensku heilbrigðiskerfi og efnahagslífinu almennt.
Á stjórnarfundinum ákvað meirihluti stjórnar að fela Valgerði að leiða umræddar breytingar. Mun það hafa verið gert í andstöðu við vilja formanns stjórnar. Segja heimildir Morgunblaðsins að Valgerður hafi í kjölfarið talið formanninn hafa gripið harkalega fram fyrir hendur sínar í þeim störfum.
Nánar um þetta mál á mbl.is hér