Helgi Bjarnason Erla María Markúsdóttir Þorgerður Anna Gunnarsdóttir
Sóttvarnalæknir segir að heilbrigðisyfirvöld þurfi að halda aðgerðum sínum áfram til að draga úr smiti kórónuveirunnar. Alls óvíst sé hvort samkomubanni verði aflétt 13. apríl þegar það á að renna út.
„Ég bið landsmenn um að búa sig undir að samkomubannið muni standa lengur, en það mun skýrast betur á næstu dögum,“ sagði Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna í gær.
Fjórar vikur voru í gær liðnar frá því að fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi og kvaðst Þórólfur ætla að við værum nú hálfnuð í langhlaupinu. Faraldurinn væri enn í vexti og hápunktinum ekki náð. „Við getum búist við að sjá aukningu á greindum tilfellum en vonandi mun það fylgja þeirri spá sem hefur verið gefin út.“ Gat sóttvarnalæknir þess þó að miðað við innlagnir á gjörgæslu væru Íslendingar að feta verstu spána í spálíkani íslensku vísindamannanna en bestu spána miðað við fjölda greindra.
Greindi sóttvarnalæknir frá því að 18 sjúklingar væru á Landspítalanum, þar af sex í öndunarvél á gjörgæslu. „Ég vil aftur minna á að þetta er langhlaup og við eigum langt í land,“ sagði Þórólfur en leyfði sér að fullyrða að faraldrinum gæti lokið í maí, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.