„Aldrei orðið vitni að þvílíkri framkomu“

Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á Vogi.
Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á Vogi. Ljósmynd/SÁÁ

Yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi segist ekki hafa áður orðið vitni að þvílíkri framkomu og hann hefur séð hjá SÁÁ. Segir hann fordóma gagnvart sálfræðingum lengi hafa viðgengist hjá stjórn og formanni samtakanna.

Starfsfólk meðferðarsviðs SÁÁ lýsti fyrr í dag yfir vantrausti á formann og framkvæmdastjórn samtakanna, en í yfirlýsingunni segir að formaður og framkvæmdastjórn SÁÁ hafi tilkynnt fyrirvaralaust um uppsögn lykilstarfsmanna á meðferðarsviðinu.

Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á Vogi, segir að 75-80% starfsfólks meðferðarsviðs hafi skrifað undir yfirlýsinguna sem samin var í morgun. 

Formaður SÁÁ, Arnþór Jónsson, hefur boðist til að stíga til hliðar sem formaður í þeirri von að forstjóri Vogs, Valgerður Rúnarsdóttir, dragi uppsögn sína til baka, en Valgerður sagði upp á fimmtudag í kjölfar ákvörðunar stjórnar samtakanna um að segja upp átta starfsmönnum í hagræðingarskyni. Á meðal þeirra sem sagt var upp voru yfirsálfræðingur og allir aðrir sálfræðingar á Vogi utan eins.

Hún sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að uppsögn Arnþórs myndi engu breyta.

Víðir tekur í sama streng og segir ekki nóg að Arnþór stigi til hliðar. Það uppræti ekki rót vandans.

„Það er í raun og veru bara einn angi vandans. Vandinn er að það er stjórn áhugafélags sem er að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á læknisfræðilega og sálfræðilega þjónustu,“ segir Víðir og bendir á að stjórnina skipi ekki fagfólk.

Víðir segir fordóma gagnvart sálfræðingum lengi hafa viðgengist hjá stjórn …
Víðir segir fordóma gagnvart sálfræðingum lengi hafa viðgengist hjá stjórn og formanni SÁÁ. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Bera mikla virðingu fyrir Valgerði

Í vantraustsyfirlýsingunni sem gefin var út í dag lýsti starfsfólkið einnig yfir stuðningi við Valgerði. 

„Valgerður Rúnarsdóttir er mjög vel liðinn yfirmaður, hún er vandvirk og ábyrgðarfær og það er borin mikil virðing fyrir Valgerði bæði sem fagmanneskju og bara sem manneskju. Þarna var bara algjörlega brotið á henni,“ segir Víðir.

Framkoma stjórnar SÁÁ og formanns sé ekki boðleg.

„Ég hef aldrei orðið vitni að þvílíkri framkomu gagnvart starfsfólki eins og ég hef séð hjá SÁÁ. Það er bæði yfirgangur og framkoma og orðbragð sem maður leyfir sér ekki í kurteislegum samskiptum. Það eru ýmisleg samskiptamál sem hafa bara verið til skammar hjá SÁÁ og þetta er í algjörri mótstöðu við það frábæra starfsfólk og það frábæra meðferðarstarf sem fer fram hjá SÁÁ. Þrátt fyrir ótrúlega gott fagfólk, mikla þróun og nýsköpun í starfinu eru þessir gömlu draugar sem hafa verið að trufla meðferðarstarfið og taka orku frá hlutum sem eru mikilvægir,“ segir Víðir.

Dragi til baka uppsagnirnar

Starfsfólk fer fram á það í yfirlýsingunni að framkvæmdastjórn dragi til baka uppsagnir sálfræðinga og lykilstarfsfólks meðferðarsviðs og að framkvæmdastjórn og formaður stígi til hliðar. 

„Það sem við vonum er að stjórnin fari og það verði til nýtt stjórnarform, starfsstjórn þar sem fagfólk kemur í stjórnina þannig að það verði ekki teknar ákvarðanir sem hafa áhrif á meðferðarstarf án þess að það sé fagfólk sem kemur að því. Þetta eru erfiðir tímar og það er erfið fjárhagsleg staða hjá SÁÁ og það þarf að taka á henni. Við viljum koma að því svo það sé hægt að halda við eðlilegri meðferðarstarfsemi hjá sjúkrahúsinu því að eins og þetta var gert var ekki öruggt að við hefðum getað haldið starfseminni uppi,“ segir Víðir. 

„Það er alveg hægt að gera breytingar og skera niður en það verður að vera þá í samráði við það fólk sem er að vinna vinnuna. Mín tilfinning er sú varðandi þessar uppsagnir að það sé verið að nýta erfitt ástand í þjóðfélaginu til þess að ná sér niðri á starfsstétt sem hefur þurft að verja tilvistarrétt sinn gagnvart þessum gömlu öflum innan SÁÁ í langan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert