Eldsvoði í einbýlishúsi nærri Stokkseyri

Ljóst er að um mikið tjón er að ræða, en …
Ljóst er að um mikið tjón er að ræða, en slökkvilið reynir að slökkva eldinn að utan og ekki þykir öruggt að fara inn í húsið. Ljósmynd/Sigmundur Sigurgeirsson

Mikill eldur kom upp í tveggja hæða einbýlishúsi í nágrenni við Stokkseyri nú eftir hádegi í dag. Brunavarnir Árnessýslu eru á staðnum, en mikill hiti er í húsinu og ekki þótti tryggt að senda slökkviliðsmenn inn í húsið til slökkvistarfa.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri brunavarna Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að tilkynnt hafi verið um mikinn eld í húsinu, en um er að ræða Efra-Sel rétt fyrir norðan Stokkseyri. Þegar á staðinn var komið var ekki vitað hvort einhver væri inni í því, en í ljós hafi komið að svo væri ekki.

Hann segir húsið vera gamalt timburhús klætt með bárujárni. Þegar slökkviliðið kom var strax mikill hiti í húsinu og er gólfið á efri hæðinni nú fallið. Segir hann að einangrað sé með hálmi og öðrum eldfimum efnum og því sé ekki tryggt að senda slökkviliðsmenn inn. Segir hann að slökkvistarf miðist því við ytra slökkvistarf.

„Það er alveg ljóst að þarna verður mikið tjón,“ segir Pétur við mbl.is.

Samkvæmt ljósmyndara á staðnum heyrast miklir brestir frá vettvangi og hefur heldur bætt í eldinn á síðustu mínútum.

Bruni í nágrenni við Stokkseyri.
Bruni í nágrenni við Stokkseyri. Ljósmynd/Sigmundur Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert