Harma ákvörðun SÁÁ og lýsa yfir vantrausti

Sjúkrahúsið Vogur.
Sjúkrahúsið Vogur. mbl.is/Eggert

Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, FÁR, harmar þá ákvörðun framkvæmdastjórnar SÁÁ að grípa til uppsagna og skerða starfshlutfall áfengis- og vímuefnaráðgjafa hjá samtökunum, ásamt því að segja upp öllum sálfræðingum nema einum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Formaður SÁÁ, Arnþór Jóns­son, hef­ur boðist til að stíga til hliðar sem formaður í þeirri von að for­stjóri Vogs, Val­gerður Rún­ars­dótt­ir dragi upp­sögn sína til baka, en Val­gerður sagði upp á fimmtu­dag í kjöl­far ákvörðunar stjórn­ar sam­tak­anna um að segja upp átta starfs­mönn­um í hagræðing­ar­skyni. Á meðal þeirra sem sagt var upp voru yf­ir­sál­fræðing­ur og all­ir aðrir sál­fræðing­ar á Vogi utan eins.

Hún sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að upp­sögn Arnþórs myndi engu breyta. Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á Vogi, tók í sama streng í viðtali í kvöld og sagði ekki nóg að Arnþór stigi til hliðar. Það upp­ræti ekki rót vand­ans.

„Það er í raun og veru bara einn angi vand­ans. Vand­inn er að það er stjórn áhuga­fé­lags sem er að taka ákv­arðanir sem hafa áhrif á lækn­is­fræðilega og sál­fræðilega þjón­ustu,“ sagði Víðir og benti á að stjórn­ina skipi ekki fag­fólk.

Yfirlýsing FÁR er á þessa leið:

„FÁR, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, harmar þá ákvörðun framkvæmdastjórnar SÁÁ að grípa til uppsagna og skerða starfshlutfall áfengis- og vímuefnaráðgjafa hjá SÁÁ ásamt því að segja upp öllum sálfræðingum, nema einum.

Meðal þeirra sem sagt var upp er Ingunni Hansdóttur, en hún hefur leitt nám og þjálfun áfengis og vímuefnaráðgjafa. Með þessum uppsögnum er heil fagstétt nánast þurrkuð út úr því þverfaglega teymi, sem stendur að meðferð fólks með fíknsjúkdóm og sér að öllu leyti um sálfræðiþjónustu fyrir börn þeirra sem glíma við áfengis og/eða vímuefnavanda.

FÁR mótmælir uppsögn þriggja elstu ráðgjafa SÁÁ.. Þessir þrír ráðgjafar búa yfir mikilli reynslu og þekkingu. Faglegt og fjárhagslegt tap við brotthvarf þeirra þegar kemur að afköstum í vinnu og þjálfun nýrra starfsmanna, er því augljóst.

Lækkun starfshlutfalls allra starfandi áfengis- og vímuefnaráðgjafa hjá SÁÁ um 20%, mun skera þá þjónustu sem hægt er að veita fólki með fíknsjúkdóma, en sá hópur er einn af þeim sem eru í hvað mestri áhættu gagnvart Covid 19 veirunni.

Við höfum þungar áhyggjur af því ástandi sem hefur skapast vegna þessara aðgerða, ekki síst vegna þeirrar samfélagsógnar sem við stöndum nú frammi fyrir. Þörf þessa hóps fyrir þjónustu mun því miður aukast og verða flóknari, nú á þessum fordæmalausum tímum.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar er það fagfólk, sem vinnur næst fólki með fíknsjúkdóma. Í því starfi er nauðsynlegt að eiga gott og uppbyggilegt samstarf við aðrar stéttir svo sem sálfræðinga, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsráðgjafa og fleira fagfólks sem stendur að þjónustu og meðferð þessa viðkvæma hóps. Á undanförnum árum hafa orðið miklar og jákvæðar breytingar í þessu góða samstarfi, nám í faginu hefur aukist, orðið markvissara, víðtækara og betur í takt við eðlilega þróun meðferðar og samfélagsins. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar sjá augljósan hag fyrir skjólstæðinga sína að því að hafa sálfræðinga í meðferðarteyminu. Það að segja upp umsjónarmanni námsins á þessum tíma vekur upp óöryggi innan hópsins og færir til baka þann árangur sem náðst hefur undanfarin ár. Það koma margir að borðinu þegar áfengis og vímuefnameðferð á í hlut og hver starfstétt mikilvæg með sitt sérsvið.

FÁR fer eindregið fram á það við framkvæmdstjórn SÁÁ og starfsfólk meðferðarsviðs að slíðra sverðin og ná lausn í ofangreindum málum. Við gagnrýnum einnig skort á samráði við yfirmann meðferðarsviðs um ofantaldar aðgerðir.

Nái þessar aðgerðir framkvæmdarstjórnar SÁÁ fram að ganga er unnt að ekki er hægt að tryggja meðferð fólks með fíknsjúkdóma með eðlilegum hætti. Því þurfa heilbrigðisyfiröld að stíga inn.

FÁR kallar eindregið eftir því að báðir aðilar vinni saman að því að tryggja áfengis og vímuefnameðferð, þannig að hægt verði að afturkalla þessar aðgerðir sem áður eru taldar sem koma afar illa við þau sem síst skyldi þ.e. fólk með fíknsjúkdóma og aðstandendum þeirra.

FÁR skorar á heilbrigðisyfirvöld þ.e. Alþingi, heilbrigðisráðherra, Landlækni og Sjúkratryggingar Íslands að tryggja fjármögnun starfsemi SÁÁ svo að þjónusta við fólk með fíknsjúkdóma og aðstandendur þeirra geti haldið áfram á þessum óvissutímum og fái að þróast á eðlilegan hátt til framtíðar.

Í kjölfar þessara aðgerða lýsir FÁR yfir vantrausti á formanni og framkvæmdarstjórn SÁÁ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert