Sóttvarnaráð komi saman sé óskað eftir því

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að það sé rétt að efna til fjarfundar ef einhver úr ráðinu óskar eftir því. Þá verður orðið við því.“ Þetta segir Svandís Svavarsdóttir innt eftir viðbrögðum við því að sóttvarnaráð hafi ekki komið saman til fundar frá því í febrúar, áður en kórónuveiran barst til landsins. Sjö eiga sæti í sóttvarnaráði en auk þess er sóttvarnalæknir ritari þess.

Í samtali við Morgunblaðið í dag Vilhjálmur Arason læknir, sem situr í ráðinu, að hann teldi eðlilegt að það yrði kallað saman. Formaður ráðsins sagði hins vegar að ekki hafi verið talin ástæða til að kalla ráðið saman, en að það yrði gert ef spurningar kæmu frá ráðherra, sem þörfnuðust svara.

Sóttvarnaráð skal samkvæmt lögum móta stefnu í sóttvörnum og vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma. Aðspurð segir Svandís að ráðið sé einungis til ráðgjafar en að sóttvarnalæknir fari með framkvæmd aðgerða samkvæmt lögum.

Vilhjálmur Ari Arason læknir.
Vilhjálmur Ari Arason læknir. mbl.is/Sigurður Bogi

Ráðið kom síðast saman 14. febrúar. Á þeim fundi var aðgerðaáætlun vegna veirunnar rædd og fékk Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir „fullan stuðning við þær aðgerðirsem planaðar voru“ að því er haft er eftir Vilhjálmi í Morgunblaðinu í dag. Ráðið hefur hins vegar ekki haft aðkomu að aðgerðum síðan. „Ekki það endilega að við séum með betri lausnir en það er þá alla vega búið að ræða málin.“

Einhugur um aðgerðir yfirvalda, segir ráðherra

Meðal þeirra atriða sem Vilhjálmur hefði kosið að yrðu rædd í sóttvarnaráði er hvort rétt sé að halda skólum og leikskólum opnum í kórónuveirufaraldrinum. „Það eru ný vísindi fyrir mér ef faraldur eins og þessi dreifist ekki meðal barna.“

Spurð hvort ráðherra hafi orðið var við margar skiptar skoðanir meðal heilbrigðisstarfsmanna um þessa ráðstöfun og aðrar, segir Svandís svo ekki vera. „Ég hef ekki orðið vör við það. Það er almannarómur bæði meðal heilbrigðisstétta og þjóðarinnar að við séum einstaklega lánsöm að geta farið eftir ráðgjöf og mati sóttvarnalæknis á hverjum tíma,“ segir Svandís. „Hér fylgja stjórnvöld mjög eindregið eftir leiðbeiningum okkar besta fólks og ég tel það vera réttustu ráðstöfunina. Hún ítrekar þó að aðgerðir séu endurmetnar frá degi til dags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert