Þrjú hætta í stjórn SÁÁ

Þrír fulltrúar í framkvæmdastjórn SÁÁ hafa sagt sig frá störfum.
Þrír fulltrúar í framkvæmdastjórn SÁÁ hafa sagt sig frá störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír fulltrúar í framkvæmdastjórn SÁÁ hafa sagt sig frá störfum fyrir samtökin í kjölfar deilna sem leiddu til þess að Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi og forstjóri sjúkrahússins, sagði upp störfum fyrr í vikunni. Þá hafa sálfræðingar og lýðheilsufræðingur sem sagt var upp störfum í niðurskurðaraðgerðum hjá stofnuninni lýst yfir vantrausti á vinnubrögð framkvæmdastjórnarinnar.

Arnþór Jónsson hefur verið formaður SÁÁ frá árinu 2013.
Arnþór Jónsson hefur verið formaður SÁÁ frá árinu 2013. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarmenn í samtökunum lýsa framkomu formanns Samtakanna gagnvart yfirlækninum sem ólíðandi. Á stjórnarfundi lagði læknirinn fram formlega kvörtun vegna samskiptanna sem hún kallaði „óboðlega samskiptahætti“. Arnþór Jónsson formaður segir engan ágreining hafa verið uppi milli sín og læknisins og að slíkar ávirðingar séu aðeins „kjaftasögur“. Heimildir Morgunblaðsins herma að fleiri stjórnarmenn íhugi nú stöðu sína vegna þeirrar upplausnar sem skapast hefur á vettvangi samtakanna og leggst ofan á aðsteðjandi rekstrarvanda þeirra. Þá mun mikið kurr vera meðal starfsmanna vegna uppsagnar yfirlæknisins.

Heimildarmenn Morgunblaðsins herma að ágreiningurinn tengist meðal annars kröfum fyrrverandi formanns SÁÁ og yfirlæknis á Vogi, Þórarins Tyrfingssonar, um starfsaðstöðu á sjúkrahúsinu. Mun yfirlæknirinn hafa lagst eindregið gegn þeim óskum í ljósi þess hve þröngt er um starfsemina. Þórarinn hefur á síðustu árum sinnt afmörkuðum verkefnum fyrir starfsemina sem ekki krefjast viðveru á sjúkrahúsinu.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert