Fá frítt gistirými á Hótel Reykjavík Natura

Hótel Reykjavík Natura.
Hótel Reykjavík Natura. mbl.is/Ómar

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samkomulag við Icelandair Hotels um að nýta aðstöðu á Hótel Reykjavík Natura sem gistirými fyrir skilgreinda lykilstarfsmenn heilbrigðiskerfisins og almannavarna í þeim tilvikum þar sem þeir geta ekki dvalið heima hjá sér af hættu við smit af COVID-19.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum.

Tekið er fram þar að um sé að ræða þá starfsmenn heilbrigðiskerfisins og almannavarna sem gegni sérstakri ábyrgð samkvæmt neyðaráætlun heilbrigðiskerfisins og innan stjórnstöðvar almannavarna, eða búi yfir sérstakri þekkingu eða færni sem sé nauðsynleg við framkvæmd neyðaráætlunarinnar. 

„Þakklát þessu einstaka framtaki“

Að beiðni heilbrigðisyfirvalda hafi Sjúkratryggingum Íslands verið falið að finna úrræði til að mæta þessum þörfum. Í kjölfar verðfyrirspurnar hafi svo verið ákveðið að þiggja boð Icelandair Hotels, sem boðið hafi yfirvöldum endurgjaldslaus afnot af Hótel Reykjavík Natura.

„Yfirvöld eru þakklát þessu einstaka framtaki Icelandair Hotels og vilja jafnframt koma á framfæri sérstöku þakklæti til þeirra hótela sem leitað var til, fyrir skjót og höfðingleg tilboð, sem sýna enn og aftur þann kraft og samtakamátt sem býr í íslensku samfélagi þegar hætta steðjar að.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert