Samtals 17.500 umsóknir vegna skerts starfshlutfalls höfðu borist Vinnumálastofnun í gær, laugardag. Hafði þeim fjölgað um 2.500 frá því fyrri partinn á föstudaginn. Samtals hafa borist umsóknir frá starfsmönnum 3.700 fyrirtækja. Þá hafa 4.500 almennar umsóknir borist stofnuninni í þessum mánuði vegna atvinnuleysis. Þetta staðfestir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, við mbl.is.
Unnur segir að í flestum tilfellum sé verið að sækja um hámarks greiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
Alþingi samþykkti á föstudaginn fyrir rúmlega viku síðan frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, svokallaða hlutastarfaleið. Flestar umsóknir sem hafa borist miða við að minnka starfshlutfall um hámarkið, en samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 25 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Hafi starfsmaður verið með 400 þúsund krónur eða minna í laun fyrir 100% starf fær hann skerðinguna að fullu bætta.
Á föstudaginn var hlutfallið þannig að 59% höfðu sótt um 75% skerðingu á starfshlutfalli. 29% höfðu sótt um 50-74% skerðingu starfshlutfalls og 12% um að minnka um minna en 50%. Það er því ljóst að lang stærsti hluti umsóknanna er við efri mörkin.
Unnur segir að „lang lang lang mest af umsóknunum tengist ferðaþjónustu.“ Þar sé um að ræða starfsfólk í farþegaflutningum, bæði í lofti og á landi, starfsfólk í veitingageiranum, á bílaleigum, hótelum o.s.frv. „Það var eftir bókinni,“ segir hún, en ljóst var að áhrif útbreiðslu veirunnar yrðu hvað hörðust á ferðaþjónustuna.
Varðandi almennu umsóknirnar segir Unnur að hafa verði í huga að þar sé folk að sækja um sem missti vinnuna fyrir 1-3 mánuðum síðan. „Þar er fólk sem missti vinnuna um áramótin,“ segir hún og bætir við að þar sé ekki að gæta áhrifa kórónuveirunnar ennþá.