Starfsmenn 3.700 fyrirtækja sótt um hlutabætur

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar á fundi almannavarna í síðustu viku. …
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar á fundi almannavarna í síðustu viku. Umsóknir hrúgast inn til stofnunarinnar vegna skerts starfshlutfalls mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtals 17.500 umsóknir vegna skerts starfshlutfalls höfðu borist Vinnumálastofnun í gær, laugardag. Hafði þeim fjölgað um 2.500 frá því fyrri partinn á föstudaginn. Samtals hafa borist umsóknir frá starfsmönnum 3.700 fyrirtækja. Þá hafa 4.500 almennar umsóknir borist stofnuninni í þessum mánuði vegna atvinnuleysis. Þetta staðfestir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, við mbl.is.

Unnur segir að í flestum tilfellum sé verið að sækja um hámarks greiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Alþingi samþykkti á föstu­daginn fyrir rúmlega viku síðan frum­varp Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, fé­lags- og barna­málaráðherra, um rétt til greiðslu at­vinnu­leys­is­bóta sam­hliða minnkuðu starfs­hlut­falli vegna tíma­bund­ins sam­drátt­ar í starf­semi vinnu­veit­enda, svo­kallaða hlutastar­fa­leið. Flest­ar um­sókn­ir sem hafa borist miða við að minnka starfs­hlut­fall um há­markið, en sam­kvæmt lög­un­um get­ur fólk sem verið hef­ur í fullu starfi farið niður í allt að 25 pró­senta starfs­hlut­fall og átt rétt á bót­um. Hafi starfsmaður verið með 400 þúsund krón­ur eða minna í laun fyr­ir 100% starf fær hann skerðing­una að fullu bætta.

88% sækja um meira en 50% skerðingu

Á föstudaginn var hlutfallið þannig að 59% höfðu sótt um 75% skerðingu á starfshlutfalli. 29% höfðu sótt um 50-74% skerðingu starfshlutfalls og 12% um að minnka um minna en 50%. Það er því ljóst að lang stærsti hluti umsóknanna er við efri mörkin.

Unnur segir að „lang lang lang mest af umsóknunum tengist ferðaþjónustu.“ Þar sé um að ræða starfsfólk í farþegaflutningum, bæði í lofti og á landi, starfsfólk í veitingageiranum, á bílaleigum, hótelum o.s.frv. „Það var eftir bókinni,“ segir hún, en ljóst var að áhrif útbreiðslu veirunnar yrðu hvað hörðust á ferðaþjónustuna.

Varðandi almennu umsóknirnar segir Unnur að hafa verði í huga að þar sé folk að sækja um sem missti vinnuna fyrir 1-3 mánuðum síðan. „Þar er fólk sem missti vinnuna um áramótin,“ segir hún og bætir við að þar sé ekki að gæta áhrifa kórónuveirunnar ennþá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert