Vakta áfram húsið vegna vinds

Frá eldsvoðanum í gær.
Frá eldsvoðanum í gær. mbl.is/Jóhann Óli Hilmarsson

Slökkviliðsmenn brunavarna Árnessýslu luku störfum á vettvangi við Efra-Sel í nágrenni Stokkseyri rétt fyrir miðnætti í gær. Slökkvistörfum lauk þó um klukkan tíu í gærkvöldi. 

Tilkynnt var um eldsvoðann í Efra-Seli rétt fyrir klukkan 14 í gær, en enginn var í húsinu þegar eldurinn kviknaði. Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri brunavarna Árnessýslu, segir að húsið sé áfram vaktað. 

„Það hefur aðeins bætt í vind eftir hádegi og þá á það til að taka sig eitthvað upp í glóð. Þeir fóru niður eftir til að vakta húsið og slökkva í einhverjum glæðum,“ segir Pétur. 

Pétur segir húsið standa ennþá en að allt sé þó brunnið í húsinu. „Fyrsta mat á húsinu var ekki alveg eins og leit út í upphafi. Þetta er semsagt steypt hús en ekki timburhús eins og talið var,“ segir Pétur. 

Lögreglan á Suðurlandi fer nú með rannsókn málsins, en eldsupptök eru óljós að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka