Vantrauststillaga á framkvæmdastjórnina felld

Vantrausttillaga á framkvæmdastjórn SÁÁ var felld á stjórnarfundi í kvöld.
Vantrausttillaga á framkvæmdastjórn SÁÁ var felld á stjórnarfundi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vantrauststillaga sem borin var fram á hendur framkvæmdastjórn SÁÁ var felld á stjórnarfundi samtakanna nú í kvöld. Starfsfólk meðferðarsviðs SÁÁ og Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa lýstu í gær yfir vantrausti á formann og framkvæmdastjórn samtakanna.

Stjórn SÁÁ boðaði til skyndifundar í gær eftir að Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir og forstjóri á sjúkrahúsinu Vogi, sagði upp starfi sínu í kjölfar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar um að segja upp 8 starfsmönnum meðferðarsviðsins. 

Samkvæmt heimildum mbl.is bar einn stjórnarmaður fram vantrauststillöguna sem var svo felld á fundinum, sem lauk á níunda tímanum í kvöld. 

Starfsmenn meðferðarsviðs SÁÁ sögðu í yfirlýsingu sinni í gærkvöldi að framkoma framkvæmdastjórnar og formanns gagnvart fagfólki sviðsins valdi því að vantraust ríki þeirra á milli. Ákvörðun þeirra um fyrirvaralausar uppsagnir var þá sögð óafsakanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert