Vilja tryggja lágmarkssamgöngur til og frá landinu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir mikilvægt að tryggja samgöngur til og frá landinu, en ríkið mun greiða upp tap Icelandair sem hlýst af því að halda flugsamgöngum til Evrópu og Bandaríkjanna gangandi. 

Samkomulag þess efnis var undirritað á föstudagskvöld, en flogið verður annars vegar til Boston og hins vegar til Lundúna eða Stokkhólms.

„Það eru mörg lönd og svæði sem hafa lokað landamærum og flugvöllum. Flest flugfélög hafa þar af leiðandi lagt af flug og ekki augljóst að Icelandair myndi halda því uppi án þess að við kæmum að máli við þau, teldum það mikilvægt og værum tilbúin að dekka ákveðinn kostnað svo að þau tapi ekki á því að halda úti flugi,“ segir Sigurður Ingi um samkomulagið í samtali við mbl.is. 

Íslendingar erlendis komist heim

„Við erum að gera þetta til að tryggja að það séu opin landamæra. Meðal annars svo að Íslendingar sem eru erlendis komist heim og höfum við komið þessum upplýsingum til borgaraþjónustunnar sem heldur utan um þau mál. Icelandair hefur tekið þessu mjög vel og skipulagt sig út frá þessu og hefur reyndar getað aukið flug umfram það sem við fórum fram á að tryggja,“ segir Sigurður. 

Samkomulagið kveður á um að lágmarki sex ferðir á hvorn áfangastað næstu þrjár vikurnar. Ríkið mun greiða að hámarki 100 milljónir til flugfélagsins á sama tímabili sem gert verður upp eftir á. 

Mögulega framlengt

Sigurður segir mikilvægt að Ísland hafi tengingu vestur um höf og að því sé flogið til Boston, en aðrir áfangastaðir í Bandaríkjunum komu ekki til greina. 

„Þar er ekki um auðugan garð að gresja, það er sem sagt bara Boston og Icelandair taldi sig geta náð til fólks þaðan. Það sama gildir um London og Stokkhólm,“ segir Sigurður en eins og fram hefur komið hafa fjölmörg ríki lokað landamærum sínum, meðal annars Bandaríkin. 

Sigurður segir að mögulegt sé að samkomulagið verði framlengt eftir þrjár vikur, haldi hlutirnir áfram að þróast með sama hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka