Malaríulyfið Choroquine, sem lyfjafyrirtækið Alvogen keypti á Indlandi handa íslensku þjóðinni til meðferðar við kórónuveirunni, er komið í hendur flutningsaðila og á leið heim til landsins.
Um er að ræða 50 þúsund pakka af lyfinu sem duga til meðhöndlunar á 25 þúsund sjúklingum.
Þau lyf sem eru talin líklegust til að skila árangri í baráttunni við veiruna eru Chloroquine og Hydroxychloroquine, eyðnilyfið Kaletra og svo Remdesevir sem var þróað af Gilead Science gegn ebóla-veirunni. Indland er stærsti framleiðandi á Hydroxychloroquine og þeir hafa nú bannað útflutning á lyfinu til að nota það fyrir sína eigin þjóð. Alvogen óttaðist að bann yrði einnig sett á útflutning á Chloroquine og því næsta ómögulegt að nálgast lyfið.
Sama dag og lyfið var tilbúið til afhendingar 24. mars var sett útgöngubann á Indlandi með fjögurra klukkustunda fyrirvara. Með hjálp utanríkisráðuneytisins, indverska sendiráðsins á Íslandi og sendiherra er lyfið á leið til Íslands og gera áætlanir gera ráð fyrir að það komi hingað um helgina en RÚV greindi frá kaupunun fyrr í dag.
„Það var mikið kappsmál að koma þessu til landsins því öll lönd voru að reyna að fá þetta,“ segir Guðrún Ýr Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri yfir sölu Alvogen á Íslandi, í samtali við mbl.is. „Við erum mjög ánægð með að hafa náð að tryggja þetta,“ bætir hún við enda viti enginn nákvæmlega hve lengi núverandi ástand muni vara. Um tvær vikur tók fyrir Alvogen að tryggja sér lyfið.
Mörg lönd nota Chloroquine og Hydroxychloroquine í dag gegn Covid-19, meðal annars Bandaríkin, Frakkland, Svíþjóð, Belgía Ástralía, Suður-Kóreu, Indland og voru þau notuð í Kína í baráttunni við faraldurinn. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er með umfangsmiklar klíniskar rannsóknir í gangi fyrir lyfin í 45 löndum.
Guðrún Ýr nefnir að það taki allt að 10 ár að þróa nýtt lyf og koma því á markað og að þróa bóluefni við Covid-19 taki líklega eitt ár til viðbótar. Í ljósi þess sé mjög mikilvægt að rannsaka frekari virkni þeirra veirulyfja gegn Covid-19 sem eru nú þegar á markaði.