695 sagt upp í 17 hópuppsögnum í mars

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hafa sautján fyrirtæki tilkynnt Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í mars. Einstaklingarnir sem missa störfin sín eru 695 talsins. Að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, er líklegt að fleiri tilkynningar um hópuppsagnir berist á morgun, síðasta dag marsmánaðar.

Til samanburðar þá barst Vinnumálastofnun 21 tilkynning um hópuppsögn allt síðasta ár, sem var það mesta á einu ári síðan 2009. 

„Ég hef ekki séð þessa tölfræði síðan í hruninu, ég get fullyrt það,“ segir Unnur og á þar við tölfræði fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni. Fjölmargir misstu vinnuna við gjaldþrot WOW air í fyrra en þar var um eitt tilvik að ræða.

Flest fyrirtækin eru starfandi á Suðvesturlandi og hlutfallslega miðað við íbúafjölda eru flestar uppsagnirnar á Suðurnesjum. 

Fyrr í dag var 101 starfsmanni sagt upp hjá Isavia, auk þess sem 37 til viðbót­ar verður boðið áfram­hald­andi starf í minnkuðu starfs­hlut­falli til framtíðar. 

„Útlitið er dökkt“

Unnur segir að mörgum þeirra sem sóttu um hefðbundnar atvinnuleysisbætur í mars hafi verið sagt upp í desember og janúar. Þetta fólk sem núna hefur verið sagt upp skilar sér ekki í kerfið fyrr en í maí, júní og júlí, miðað við hefðbundinn uppsagnarfrest. „Útlitið er dökkt,“ segir hún.

Hún segir ruðningsáhrifin vegna kórónuveirunnar vera mikil í ferðaþjónustunni í heild sinni en vonar að fyrirtækin muni ráða eitthvað af fólkinu til baka ef ástandið í efnahagslífinu batnar. Þess vegna er ekki öruggt að allar uppsagnirnar komi til framkvæmda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert