Alþingi samþykkti í kvöld sex þingmál sem hljóða upp á tæplega 26 milljarða króna aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins. Allar breytingatillögur stjórnarandstöðunnar voru felldar.
Um er að ræða aukningu upp á um 4,6 milljarða frá því sem gert var ráð fyrir í fyrstu umræðu.
Fyrirferðamest málanna sex sem afgreidd voru í kvöld var bandormurinn svokallaði, frumvarp um ýmsar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar kórónuveirufaraldursins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, voru á meðal þeirra sem gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að samþykkja ekki breytingatillögurnar.
Stjórnarandstaðan lagði fram sameiginlegar tillögur um 30 milljarða framkvæmdir á þessu ári til viðbótar við þeim tillögum upp á 20 milljarða sem ríkisstjórnin hefur kynnt, en breytingatillögur þær voru felldar.
Að lokinni atkvæðagreiðslunni þakkaði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þingmönnum og starfsfólki Alþingis, fyrir gott samstarf í dag við að ljúka fyrirliggjandi verki við óvenjulegar aðstæður. Vegna kórónuveirunnar gengu þingmenn inn í salinn einn af öðrum, með að minnsta kosti tvo metra á milli sín, til að greiða atkvæði.