Bætt verði við níu milljörðum

Alþingishúsið við Austurvöll.
Alþingishúsið við Austurvöll. mbl.is/​Hari

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd leggja til að verkefnum upp á níu milljarða verði bætt við fjárfestingapakka ríkisstjórnarinnar.

Í sameiginlegum breytingartillögum þeirra er lagt til að ráðist verði í mannaflsfrekar framkvæmdir þegar á þessu ári. Vegagerðinni verði falið að meta hvaða verkefni upp á fimm milljarða geti bæst við en í breytingartillögu þeirra er sérstaklega nefnd flýting framkvæmda við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg, sé þess kostur.

Þá er lagt til að þremur milljörðum verði ráðstafað í viðhald og tengivegi vegakerfisins og Vegagerðinni falið að meta brýnustu verkefnum í hverjum landshluta. Milljarði verði varið í flýtingu framkvæmda vegna skipulagsmála á höfuðborgarsvæðinu og í göngu- og hjólastíga.

Að tillögunni standa Þorsteinn Víglundsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Þórarinsson og  Björn Leví Gunnarsson.

Þorsteinn segir að þingmönnum minnihlutans þyki 15 milljarða króna viðbótarfjárfesting of lítil. Tillögurnar séu í sjálfu sér ágætar en gangi of skammt. Þörfin sé frekar 30-40 milljarða viðbót. Það hafi valdið vonbrigðum að tillögum minnihlutans um raunhæf fjárfestingarverkefni á þessu ári hafi verið synjað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert