Helgi Bjarnason
Endurgreiðsla á virðisaukaskatti mun ekki aðeins ná til framkvæmda við íbúðir og sumarhús heldur einnig til bílaviðgerða, ef breytingartillögur efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við stjórnarfumvarp um aðgerðapakka til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru nær fram að ganga. Nefndin afgreiddi málið frá sér um helgina.
„Þetta er skref í rétta átt. Málið kemur aftur til kasta ríkisstjórnarinnar og Alþingis innan ekki margra vikna. Við þurfum að gera meira, það er alveg klárt,“ segir Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar. Frumvarpið er um breytingar á ýmsum lögum til að milda áhrif höggsins á fyrirtæki og heimili.
Allir nefndarmenn stjórnar og stjórnarandstöðu stóðu að málinu en stjórnarandstæðingar með efnislegum fyrirvörum. „Upprunalegar tillögur gengu frekar skammt og tóku ekki á neinum þáttum sem snúa að aðflutningsgjöldum í tolli og virðisaukaskatti sem eru þungir gjalddagar, hvað þá hjá tekjulausum fyrirtækjum. Okkur tókst að laga aðeins til hvað það varðar þó ekki felist í tillögunum nein bein úrræði,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. Nefndin gerði fjölda breytingartillagna enda hefur útlitið dökknað frá því frumvarpið var lagt fram.
Meðal tillagna er að gefinn er meiri sveigjanleiki í frestun á gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds. að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.