Fyrsti einstaklingurinn greindist með kórónuveiruna á norðanverðum Vestfjörðum í gær en hingað til hafa smitaðir Vestfirðingar verið að heiman þegar smit hefur greinst.
Unnið er að smitrakningu. Haft hefur verið samband við alla sem þurfa að grípa til ráðstafana að svo stöddu. Nú þegar hafa nokkur sýni verið tekin og fleiri sýni verða tekin í dag. Þá er nokkur fjöldi fólks í sóttkví og einangrun tengt smitinu og mun sá fjöldi taka breytingum eftir því sem smitrakningu vindur fram og niðurstöður sýna liggja fyrir, samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.