Atkvæðagreiðsla um frumvarp ríkisstjórnarinnar um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum fer líklega fram á sjötta tímanum að sögn Steíngríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við upphaf þingfundar í morgun að aðgerðapakkinn komi ágætlega út miðað við önnur lönd en eflaust þurfi þó að grípa til frekari aðgerða.
Stjórnarandstöðuþingmenn hafa sagt að betra sé að gera meira en minna í þessum málum.
Þá sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is í morgun eftir fund þingflokksformanna með þingforseta að gera megi athugasemd við að aðgerðir í frumvarpinu nái frekar til hefðbundinna karlastarfa en kvennastarfa.
Stjórnarandstaðan á þingi hefur lagt fram sameiginlegar tillögur um 30 milljarða framkvæmdir á þessu ári til viðbótar við þeim tillögum upp á 20 milljarða sem ríkisstjórnin hefur kynnt.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði ýkjur að kalla aðgerðir stjórnvalda stærstu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar. Hann sagði enn fremur að meira hefði þurft að gera fyrir fólk, ekki mætti einblína á fyrirtæki.