Verkleg ökukennsla liggur nú niðri vegna kórónuveirunnar. Skv. ákvörðun sóttvarnalæknis, að tveir metrar skuli vera milli fólks í samskiptum, kom af sjálfu sér að ökukennarar hættu verklegri kennslu.
En allir, sem eru komnir af stað í námi og hafa lokið bóklegum undirbúningi og tíu verklegum kennslustundum hjá kennara, geta verið í æfingaakstri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Kannski eru aldrei betri aðstæður fyrir æfingaakstur en einmitt nú,“ segir Ævar Friðriksson, ökukennari í Reykavík. „Foreldrar nemenda eru sjálfsagt margir lausari við gagnvart vinnu sinni nú en í annan tíma. Þá er sáralítil umferð á götunum nú og því svigrúm fyrir ungt fólk sem er að læra á bílinn og aðstæðurnar.“