Með miklar áhyggjur af þróun meðferðarmála

Mikill styr hefur staðið um starfsemi SÁÁ að undanförnu.
Mikill styr hefur staðið um starfsemi SÁÁ að undanförnu. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Rótin, sem er félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, lýsir miklum áhyggjum af þróun meðferðarmála í landinu í ljósi þeirra atburða sem nú eru að gerast innan SÁÁ, ekki síst með tilliti til aðstæðna í samfélaginu.

Í ályktun skorar félagið á yfirvöld að tryggja að fólk sem notar vímuefni fái faglega þjónustu sem byggist á gagnreyndri þekkingu samkvæmt tilmælum alþjóðastofnana. Tekur það undir með þeim sem fordæma vinnuaðferðir framkvæmdastjórnar og formanns SÁÁ.

Valgerður Á. Rúnarsdóttir.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Félagið bendir á að gæðastarf og stefnumótun hjá SÁÁ hafi fengið falleinkunn í hlutaúttekt Embættis landlæknis árið 2016 þar sem bent var á að engin gögn væru til um árangur meðferðarinnar og engar þjónustukannanir.

„Eftir að Rótin hóf sína baráttu hafa orðið ýmsar jákvæðar breytingar hjá SÁÁ, ekki síst eftir að Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir og Ingunn Hansdóttir yfirsálfræðingur tóku við stjórnartaumunum á Vogi. Unnið hefur verið að aukinni fagmennsku í meðferðinni, kynjaskiptingu og innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar og aukinnar faglegrar þjónustu eins og sálfræðiþjónustu. Allt eru þetta skref í rétta átt,“ segir í ályktuninni þar sem fram kemur að það skjóti skökku við að sjá formann SÁÁ „kvarta undan auknum faglegum metnaði og áherslum hjá forstjóra sjúkrahússins Vogs“.

„Rótin, sem býr yfir sérþekkingu á vímuefnavanda kvenna, er með útfærðar hugmyndir um þjónustu við konur með áfallasögu og/eða vímuefnavanda og áréttar að við erum tilbúnar  að leggja okkar af mörkum við uppbyggingu þjónustu við þennan hóp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert