Stefnir í 20 þúsund umsóknir

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt bendir til þess að tuttugu þúsund umsóknir hafi borist um bætur vegna skerts starfshlutfalls hafi borist til Vinnumálastofnunar um hádegið. Umsóknir hafa streymt inn jafnt og þétt allt frá því byrjað var að taka við umsóknum á miðvikudag, segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Að sögn Unnar er ekki hægt að segja til um hversu margar umsóknirnar verði en vitað er að um 23 þúsund manns störfuðu í ferðaþjónustunni undanfarið ár. 

Hún segir að ríkisstjórnin hafi talað um að umsóknirnar gætu orðið um 20 þúsund og stefnir í að talan verði enn hærri. Enn er stöðugt streymi umsókna um hlutabætur á vef Vinnumálastofnunar enda stutt síðan byrjað var að taka við umsóknum og enn mörg fyrirtæki að fara yfir sín starfsmannamál. 

Fyrir helgi höfðu rúmlega 4.500 sótt um atvinnuleysisbætur í mars.

Alþingi samþykkti á föstu­dag­inn fyr­ir rúm­lega viku frum­varp Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, fé­lags- og barna­málaráðherra, um rétt til greiðslu at­vinnu­leys­is­bóta sam­hliða minnkuðu starfs­hlut­falli vegna tíma­bund­ins sam­drátt­ar í starf­semi vinnu­veit­enda, svo­kallaða hlutast­ar­fa­leið. Flest­ar um­sókn­ir sem hafa borist miða við að minnka starfs­hlut­fall um há­markið, en sam­kvæmt lög­un­um get­ur fólk sem verið hef­ur í fullu starfi farið niður í allt að 25 pró­senta starfs­hlut­fall og átt rétt á bót­um. Hafi starfsmaður verið með 400 þúsund krón­ur eða minna í laun fyr­ir 100% starf fær hann skerðing­una að fullu bætta.

Í spá sem Vinnumálastofnun birti um þróun atvinnuleysis 25. mars kom fram að í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem nú er uppi í efnahagslífinu er ljóst að atvinnuleysi mun aukast mikið á næstu vikum og mánuðum. 

„Á næstu viku til 10 dögum má þó gera ráð fyrir að hlutirnir skýrist mikið, hvað varðar umfang almennra uppsagna og hópuppsagna, sem og hve mikið úrræði um minnkað starfshlutfall verður nýtt. Ljóst af viðbrögðum fyrirtækja og þeim fyrirspunum sem hafa borist að þetta úrræði mun verða nýtt í stórum stíl.

Vinnumálastofnun hefur ákveðið í þeirri spá, sem hér er birt um þróun atvinnuleysis, að miða við að 19.000 manns muni koma inn á atvinnuleysisskrá í gegnum þetta úrræði og að bótahlutfall verði um 50-55% að jafnaði.“

Úrræðið um minnkað starfshlutfall er afturvirkt til 15. mars og mun því hafa töluverð áhrif á aukningu atvinnuleysis seinni hluta marsmánaðar.

Í apríl mun allur þungi af atvinnuleysisskráningu vegna minnkaðs starfshlutfalls koma fram, auk þess sem almennar uppsagnir munu fara að koma fram í atvinnuleysistölum í auknum mæli.

„Almennar uppsagnir munu svo halda áfram að bætast við í maí, en áætlað er að þegar líður á maímánuð muni einhver hluti fyrirtækja fara að kalla fólk til baka úr minnkuðu starfshlutfalli.

Seinni hluta maí og í júní má einnig gera ráð fyrir að umsvif fari að aukast í sumum geirum efnahagslífsins, s.s. byggingariðnaði og þjónustugreinum sem þjónusta innlendan markað.

Ólíklegt er hins vegar að ferðaþjónusta fari að taka við sér að marki fyrr en um eða upp úr miðju sumri. Því er gert ráð fyrir að atvinnuleysi fari hæst í 10,8% í apríl og 10,0% í maí en fari svo lækkandi fram í september í nálægt 6,8%, en muni aukast á ný til áramóta í takt við hefðbundna árstíðasveiflu og að atvinnuleysi í desember verði um 7,4%,“ segir í spá Vinnumálastofnunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert