Magn blautklúta í frárennsliskerfi Reykjavíkur hefur minnkað en er enn mikið og veldur vandræðum, að sögn Ólafar Snæhólm, upplýsingafulltrúa hjá Veitum.
Fyrir um viku var hreinsistöð fráveitu við Klettagarða í Reykjavík óstarfhæf vegna mikils magns af blautklútum í fráveitukerfinu og fyrir bragðið fór skólp óhreinsað í sjóinn. Ólöf segir að nokkra sólarhringa hafi tekið að hreinsa dælur og annan búnað stöðvarinnar en hún sé komin í gagnið á ný.
„Ennþá berst mjög mikið magn af blautklútum inn í fráveitukerfið og það eru vinsamleg tilmæli frá okkur til fólks að setja blautklúta í ruslið,“ segir Ólöf.