Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir að boltinn sé hjá Alþýðusambandi Íslands í tengslum við umleitanir þeirra á milli varðandi aðgerðir vegna kórónuveirunnar og áhrifa hennar á atvinnulífið.
Í samtali við mbl.is í gærkvöldi sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, að ekki kæmi til greina af hálfu sambandsins að fresta áhrifum launahækkana sem koma eiga til framkvæmda á morgun, 1. apríl. Ragnar Þór Jónsson, formaður VR, staðfesti jafnframt í samtali við mbl.is í dag að eining væri um það innan sambandsins, en að samstöðu um hvort ætlunin væri að krefjast aðgerðapakka til að létta enn frekar undir með fyrirtækjum skorti.
„Ég mun tjá mig um þetta mál á morgun,“ sagði Halldór Benjamín í samtali við mbl.is í kvöld.