Eigendur ökutækja, utan rekstrar, munu geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt að fullu vegna viðgerða á ökutækjum sínum ef reikningurinn hljóðar upp á að lágmarki 25 þús. kr. fyrir vinnuna.
Breytingartillaga efnahags- og viðskiptanefndar var samþykkt í gærkvöldi þegar aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins varð að lögum. Reikningar við allar viðgerðir sem kosta að lágmarki 25 þúsund kr. falla hér undir þessa heimild til endurgreiðslu virðisaukaskattsins en ákveðið var að heimildin nái ekki til smáviðgerða, smurþjónustu og hjólbarðaviðgerða, sem kosta minna. Þingnefndin lagði m.a. þessa breytingu til fyrir hvatningu Bílgreinasambandsins en önnur og þriðja umræða um frumvarpið fóru fram Alþingi í gær.
Bifreiðaeigendur ættu eftir lögfestingu frumvarpsins að geta sótt um endurgreiðslu vegna almennra þjónustuskoðana á bílum sínum ef þær kosta meira en 25 þús kr. án virðisaukaskatts. Einnig verður hægt að fá endurgreitt vegna vinnu við viðgerðir, bílamálun og bílaréttingar.
Bílgreinasambandið hvatti eins og áður segir þingnefndina til að lögfesta þessa heimild með sama hætti og heimilaðar endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðar- og frístundahúsnæði til að tryggja að sem mest verði að gera á bílaverkstæðum næstu mánuðina og komist verði hjá uppsögnum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.