Almannavarnir hafa verulegar áhyggjur af því álagi sem gæti skapast á heilbrigðiskerfið virði fólk ekki leiðbeiningar um að ferðast innanhúss um páskana.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði á upplýsingafundi vegna kórónuveirufaraldursins að fyrir því væru fyrst og fremst þrjár ástæður.
Í fyrsta lagi yki það verulæga hættu á umferðarslysum þegar margir væru á ferðinni, með tilheyrandi auknu álagi á heilbrigðiskerfið sem væri mjög þanið fyrir. Þá yllu þéttsetnar sumarbústaðabyggðir því að þúsundir gætu safnast saman á veik heilbrigðissvæði.
Nefndi hann t.d. uppsveitir Árnessýslu þar sem ein heilsugæsla sinnti mjög stóru svæði og hefði nóg að gera með að sinna íbúum svæðisins. Það segði sig sjálft að ef við bættust þúsundir íbúa ylli það álagi á heilbrigðiskerfi sem ekki væri byggt fyrir slíkan fjölda.
Í þriðja lagi væri það áhyggjuefni að fólk hópaðist saman fjarri heimilum sínum, þar sem það hefði komið sér upp nýjum venjum og reglum vegna kórónuveirufaraldursins. Sagði Víðir mun meiri hættu á að fólk gleymdi sér í nýju umhverfi og skapaði þannig aukna smithættu.
Víðir sagði þó ekki koma til greina að herða samkomubannið fyrir páska, né að banna fólki að fara í sumarbústaði eins og víða hefur verið gert á Norðurlöndunum.