„Umferð á götunum hér í borginni hefur dregist mikið saman og úti á landi sjást varla bílaleigubílar eða rútur,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festis sem meðal annars rekur N1.
Samdráttur í sölu á bensíni og díselolíu frá því samkomubann var sett á er á bilinu 10-12%. Áhrifa kórónuveirunnar gætir sums staðar enn ekki jafn sterkt úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu, að sögn Eggerts.
Hjá Olís hefur sala á eldsneyti dregist mikið saman, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Segir Jón Ólafur Halldórsson forstjóri fyrirtæksins það vera sem spegilmynd af umferðartölum.