Heilbrigðisráðherra hefur áhyggjur af þróun innan SÁÁ

Kórónuveirufaraldurinn hefur alls staðar áhrif og hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra …
Kórónuveirufaraldurinn hefur alls staðar áhrif og hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra áhyggjur af þróun innanbúðarmála hjá SÁÁ vegna áhrifa hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur „umtalsverðar áhyggjur“ af þróun mála hjá SÁÁ og fylgist náið með stöðunni þó að málið sé ekki komið formlega inn á borð ráðuneytisins. Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra til mbl.is.

Neyðarástand er sagt ríkja hjá SÁÁ vegna fyrirhugaðs tekjutaps vegna áhrifa af völdum kórónuveirunnar og þeirra niðurskurðaraðgerða sem framkvæmdastjórn samtakanna greip til í síðustu viku.

Í aðgerðunum voru alls átta starfsmönnum sagt upp störfum, þar af öllum starfandi sálfræðingum utan eins, auk þess sem öllum starfsmönnum var gert að taka á sig 20% launalækkun.

Faglegar ákvarðanir teknar án samráðs 

Starfsmenn eru sagðir sýna launalækkuninni skilning en mikil óánægja ríkir vegna uppsagna starfsmannanna átta og í kjölfar þeirra sagði Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, upp störfum.

„Þetta eru sam­tök sem reka meðferðina og eru rosa­lega mik­il­væg og þurfa að taka ákv­arðanir. Ég er ósátt við að það sé hægt að taka ákv­arðanir sem snúa að fag­leg­um mál­efn­um án þess að það séu eðli­legt sam­skipti og sam­ráð við stýrend­ur í meðferðinni,“ sagði Val­gerður í samtali við mbl.is fyrir helgi.

Valgerður tók við sem forstjóri Vogs árið 2017 en hefur …
Valgerður tók við sem forstjóri Vogs árið 2017 en hefur starfað þar í yfir 20 ár. mbl.is/Árni Sæberg

Síðan þá hefur að minnsta kosti einn stjórnarmaður, Jón H. B. Snorrason saksóknari, sagt sig úr stjórn og þrír hafa sagt sig úr framkvæmdastjórn. Fljótlega í kjölfarið bauðst Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, til að stíga til hliðar í þeirri von um að Valgerður drægi umsókn sína til baka.

„Óafsakanleg“ ákvörðun sem vinnur gegn markmiðum SÁÁ

Í framhaldinu lýstu 65 starfsmenn meðferðarsviðs SÁÁ yfir vantrausti á formann og framkvæmdastjórn samtakanna þar sem framkoma þeirra gagnvart fagfólki var sögð hafa valdið því að algjört vantraust ríki þeirra á milli. Það sama gerði svo Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, FÁR.

 „Ákvörðun fram­kvæmda­stjórn­ar og for­manns er óafsak­an­leg og vinn­ur gegn mark­miðum SÁÁ um fag­lega meðferð við fíkni­sjúk­dómi. Við lýs­um yfir mikl­um áhyggj­um okk­ar yfir að ófag­leg stjórn fé­laga­sam­taka geti haft óskorað vald yfir rekstri meðferðarsviðs og ógnað fag­legri starf­semi þess með af­drifa­rík­um sjálf­stæðum ákvörðunum án sam­ráðs við ábyrga yf­ir­menn og fag­fólk,“ sagði meðal annars í vantraustsyfirlýsingunni.

Stjórn SÁÁ boðaði til skyndifundar sunnudaginn 29. mars þar sem átti meðal annars að taka fyrir vantrauststillögu á framkvæmdastjórn SÁÁ. Áður en hún var tekin fyrir var lögð fram frávísunartillaga á vantrauststillöguna sem var samþykkt. Ekki var því fjallað efnislega um vantrauststillöguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka