Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur „umtalsverðar áhyggjur“ af þróun mála hjá SÁÁ og fylgist náið með stöðunni þó að málið sé ekki komið formlega inn á borð ráðuneytisins. Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra til mbl.is.
Neyðarástand er sagt ríkja hjá SÁÁ vegna fyrirhugaðs tekjutaps vegna áhrifa af völdum kórónuveirunnar og þeirra niðurskurðaraðgerða sem framkvæmdastjórn samtakanna greip til í síðustu viku.
Í aðgerðunum voru alls átta starfsmönnum sagt upp störfum, þar af öllum starfandi sálfræðingum utan eins, auk þess sem öllum starfsmönnum var gert að taka á sig 20% launalækkun.
Starfsmenn eru sagðir sýna launalækkuninni skilning en mikil óánægja ríkir vegna uppsagna starfsmannanna átta og í kjölfar þeirra sagði Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, upp störfum.
„Þetta eru samtök sem reka meðferðina og eru rosalega mikilvæg og þurfa að taka ákvarðanir. Ég er ósátt við að það sé hægt að taka ákvarðanir sem snúa að faglegum málefnum án þess að það séu eðlilegt samskipti og samráð við stýrendur í meðferðinni,“ sagði Valgerður í samtali við mbl.is fyrir helgi.
Síðan þá hefur að minnsta kosti einn stjórnarmaður, Jón H. B. Snorrason saksóknari, sagt sig úr stjórn og þrír hafa sagt sig úr framkvæmdastjórn. Fljótlega í kjölfarið bauðst Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, til að stíga til hliðar í þeirri von um að Valgerður drægi umsókn sína til baka.
Í framhaldinu lýstu 65 starfsmenn meðferðarsviðs SÁÁ yfir vantrausti á formann og framkvæmdastjórn samtakanna þar sem framkoma þeirra gagnvart fagfólki var sögð hafa valdið því að algjört vantraust ríki þeirra á milli. Það sama gerði svo Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, FÁR.
„Ákvörðun framkvæmdastjórnar og formanns er óafsakanleg og vinnur gegn markmiðum SÁÁ um faglega meðferð við fíknisjúkdómi. Við lýsum yfir miklum áhyggjum okkar yfir að ófagleg stjórn félagasamtaka geti haft óskorað vald yfir rekstri meðferðarsviðs og ógnað faglegri starfsemi þess með afdrifaríkum sjálfstæðum ákvörðunum án samráðs við ábyrga yfirmenn og fagfólk,“ sagði meðal annars í vantraustsyfirlýsingunni.
Stjórn SÁÁ boðaði til skyndifundar sunnudaginn 29. mars þar sem átti meðal annars að taka fyrir vantrauststillögu á framkvæmdastjórn SÁÁ. Áður en hún var tekin fyrir var lögð fram frávísunartillaga á vantrauststillöguna sem var samþykkt. Ekki var því fjallað efnislega um vantrauststillöguna.