Hönnun og öryggisprófanir á smitrakningarappi almannavarna er á lokastigum. Allar líkur eru á því að appið komist í gagnið á morgun, 1. apríl. Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi vegna kórónuveirufaraldursins.
Alma sagði að appið yrði kynnt betur á upplýsingafundinum á morgun.
Notkun appsins sagði Alma byggja á tvöföldu samþykki. Þannig þarf fólk að samþykkja að hlaða appinu inn á símann sinn. Appið safnar þá upplýsingum um ferðir fólks í gegnum GPS og geymir þær á símanum. Ef notandi greinist með smit verður hann svo aftur að veita smitrakningarteyminu leyfi til að nota upplýsingarnar sem appið hefur safnað.
Sagði Alma að mikið öryggi væri í appinu og að það hefði verið vottað af óháðum aðila.