Kristján H. Johannessen
„Ef maður á að reyna að sjá jákvæðar hliðar í þessu ástandi þá hugsa ég að við séum að taka mjög stór skref í nýtingu á tækni. Það mun vafalaust koma til góðs í skólastarfi,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, í Morgunblaðinu í dag.
Undanfarnar vikur hafa verið mjög erfiðar í skólum landsins og er allt kapp lagt á að reyna að þjónusta nemendur eins og hægt er í nýju og breyttu umhverfi. Fer stór hluti kennslu nú fram utan veggja skólastofunnar.
„Það er hreint út sagt ótrúlegt að upplifa og heyra það sem kennarar og skólar eru að gera. Og það er virkilega gaman að heyra sumar af þeim sögum sem sagðar eru af samskiptum kennara við nemendur sem ekki eru í staðbundnu námi,“ segir hann og bætir við að skólastjórar og kennarar hafi unnið mikið verk við að endurskipuleggja kennsluna. „Það er ekki uppgjafartónn í neinum og mikill hugur að standa sig.“
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir óvissu þó mikla og að áhyggjuefni sé hve mörg börn innflytjenda séu hætt að mæta í skóla. „Foreldrar erlendra barna hafa í stórum stíl tekið börn sín úr skólunum,“ segir hún.