Andlát: Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson
Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson, sendiherra og fyrrverandi forsetaritari, lést hinn 23. mars síðastliðinn á Sóltúni í Reykjavík, 77 ára að aldri. Sveinn fæddist í Washington 12. desember 1942. Foreldrar hans voru Henrik Sv. Björnsson sendiherra og Gróa Torfhildur (Gígja) Björnsson fiðluleikari. Systur hans hans eru Helga Björnsson fatahönnuður og Guðný Hrafnhildur (Níní) Björnsson.

Sveinn ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann var með cand. phil-gráðu í heimspeki úr Háskóla Íslands og lærði stjórnmálafræði í Manchester og við Sorbonne-háskólann í París. Árið 1968 varð hann sendiráðsfulltrúi við sendiráð Íslands í París, ár síðar fulltrúi í utanríkisráðuneytinu og síðan sendiráðsfulltrúi við sendiráð Íslands í Stokkhólmi 1970, þar sem hann varð sendiráðsritari 1971.

Árið 1974 varð Sveinn sendiráðsritari við sendiráð Íslands í Bonn í Þýskalandi og jafnframt varafastafulltrúi hjá Evrópuráðinu. Árið 1978 varð hann sendiráðunautur í utanríkisráðuneytinu á Íslandi en árið 1983 varð hann sendifulltrúi við sendiráð Íslands í London.

Árið 1987 varð Sveinn sendiherra og prótókollsstjóri hjá utanríkisráðuneytinu og árið 1990 varð hann skrifstofustjóri og alþjóðaskrifstofustjóri í ráðuneytinu. Sveinn varð forsetaritari árið 1991 og var síðan sendiherra Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg árið 1997. Árið 2001 varð Sveinn prótókollsstjóri í utanríkisráðuneytinu. Árið 2004 varð hann sendiherra Íslands í Vínarborg.

Sveinn flutti til Íslands í lok árs 2009, en fékk heilablóðfall árið 2010 og bjó á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík eftir það. Útför Sveins fór fram í kyrrþey í ljósi sérstakra aðstæðna í samfélaginu en minningarstund verður tilkynnt síðar. Börn Sveins með fyrri eiginkonu hans, Sigrúnu Dungal, eru Anna Margrét Björnsson blaðamaður og Henrik Baldvin Björnsson tónlistarmaður. Sveinn og Sigrún gengu í hjónaband árið 1970. Hún lést árið 2017.

Sveinn kvæntist 1997 Sigríði Hrafnhildi Jónsdóttur sem lést 2014. Börn hennar eru Signý Vala og Unnur Edda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert