Rakningarapp almannavarna, Rakning C-19, er tilbúið en er nú til skoðunar hjá Google og Apple áður en það verður aðgengilegt í App Store og Google Play í snjallsímum landsmanna.
Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag.
„Alveg eins og við viljum vanda okkur vilja Apple og Google gera það líka og eru að rýna tilgang þess og öryggi, svo þetta tekur einhvern tíma en við erum að nýta allar leiðir til að flýta þessu sem mest,“ sagði Alma og að tilkynning yrði send út um leið og forritið verður aðgengilegt.
Vonast hún til þess að það verði strax á morgun, en vonir stóðu til þess að það yrði í dag.