ASÍ hefur hafnað málaleitan Samtaka atvinnulífsins um að leita leiða til að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja. Eftir óformlegar viðræður um skeið og formlegt erindi SA til samninganefndar ASÍ 30. mars hefur nú borist það afdráttarlausa svar að verkalýðshreyfingin ljái ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar.
Greint er frá þessu á vef SA.
Þar segir enn fremur að í gær höfðu yfir 25 þúsund umsóknir um hlutaatvinnuleysisbætur borist Vinnumálastofnun og ríflega helmingur þeirra miðar við 25% starfshlutfall hjá atvinnurekanda, sem hefur í mörgum tilvikum tímabundið hætt sinni starfsemi.
„Fyrirtæki, sem nú taka ákvarðanir um uppsagnir eða lækkað starfshlutfall, þurfa að taka með í reikninginn að launakostnaður þeirra hækkar um 4% eða meira frá og með deginum í dag. Ástæðan er sú að laun á almennum vinnumarkaði hækka að lágmarki um 24.000 kr. hjá þeim sem hafa lægri laun og 18.000 kr. hjá hærra launuðum frá 1. apríl, samkvæmt lífskjarasamningnum. Samningurinn, sem gerður var í fyrra, felur í sér kostnað fyrir fyrirtækin í landinu á sama tíma og þau standa mörg frammi fyrir gríðarlegu tekjufalli og mikilli óvissu um framhaldið. Launahækkunin eykur launakostnað alls atvinnulífsins um 50 milljarða króna á ársgrundvelli, eða 4 milljarða á mánuði. Verkalýðshreyfingin hefur hafnað málaleitan atvinnurekenda um að milda eða fresta hækkunaráhrifum samningsins,“ segir á vef SA.
Niðurstaða ASÍ veldur SA miklum vonbrigðum. Launahækkunin 1. apríl stuðlar að fleiri uppsögnum starfsfólks en annars hefði orðið. Tímabundin lækkun mótframlags í lífeyrissjóði hefði mildað verulega höggið sem fyrirtækin verða fyrir vegna launahækkunarinnar ofan á gjörbreytta efnahagsstöðu.
Í framhaldi óformlegra þreifinga síðustu vikna sendu SA formlegt erindi til samninganefndar ASÍ 30. mars. Svar verkalýðshreyfingarinnar er að ljá ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar.
Af samtölum mátti ráða að ekki næðist breið sátt um að fresta að hluta eða öllu leyti umsömdum launahækkunum en SA bundu þó vonir við að sátt gæti náðst um tímabundna lækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð úr 11,5% í 8%. Í svari samninganefndar ASÍ er þeirri leið einnig hafnað.