Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu til forseta Íslands um skipun Ásmundar Helgasonar í embætti dómara við Landsrétt frá 17. apríl 2020. Ásmundur var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og gegndi því starfi allt þar til hann var skipaður dómari við Landsrétt frá 1. janúar 2018.
Fyrr í þessum mánuði baðst Ásmundur lausnar frá þeirri skipun og hefur dómsmálaráðherra ákveðið að leggja til við forseta Íslands að sú beiðni verði samþykkt og honum veitt lausn frá 16. apríl næstkomandi.
Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt skilaði umsögn í síðustu viku og var niðurstaða hennar sú að Ásmundur væri hæfastur í embætti. Auk hans sóttu eftirtalin um embættið: Ástráður Haraldsson héraðsdómari, Ragnheiður Bragadóttir landsréttardómari og Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ástráður ritaði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra bréf í janúar þar sem hann áskilur sér rétt til að láta reyna á lögmæti umsókna tveggja þeirra sem sækjast eftir embætti landsréttardómara, á þeim grunni að landsréttardómarar, sem skipaðir hafi verið ótímabundið í embættið, geti ekki sótt um sama embætti og þeir gegna nú þegar.
Þau Ragnheiður og Ásmundur hafa verið í leyfi frá störfum að undanförnu, Ásmundur síðan í júlí og Ragnheiður frá því í september, en dómararnir hafa ekki dæmt í málum við Landsrétt frá því í mars, þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu verið ólöglega skipaðir, ásamt Arnfríði Einarsdóttur og Jóni Finnbjörnssyni.