Segir af sér sem varaforseti ASÍ

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Frekari uppsagnir blasa við Vilhjálmi Birgissyni, fráfarandi 1. varaforseta ASÍ, eftir að greint var frá því í morgun að Alþýðusambandið hafnaði tillögu um að skerða mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði tímabundið. Aðgerðin hefði átt að létta undir með fyrirtækjum í landinu en Vilhjálmur sagði af sér sem varaforseti ASÍ í mótmælaskyni.

„Meirihlutinn hafnaði þessari leið,“ segir Vilhjálmur, sem var í minnihluta; vildi að mótframlag atvinnurekenda yrði tímabundið skert. Hann segir það gríðarlega skynsamlega leið:

„Ef okkur tekst að verja 100 störf, 200 störf, 500 störf eða 1000 störf með slíkri aðgerð, tímabundinni aðgerð, þá væri fólginn mikill ávinningur í því. Að fresta tímabundið framlagi í lífeyrissjóði, sem hefur sáralítil áhrif á réttindi félagsmanna til lengri tíma litið, er skásti kosturinn,“ segir Vilhjálmur og bætir við að það sé mun skárri kostur en að ekkert verði af launahækkunum um næstu mánaðamót.

„Við þurfum að verja fólkið okkar með því að fá fái sínar hækkanir. Einnig reynum við að örva einkaneyslu sem hefur jákvæð áhrif á verslun og þjónustu. Það gerum við ekki með því að taka launahækkanir af fólki,“ segir Vilhjálmur og heldur áfram:

„Þegar tveir slæmir valkostir eru uppi á borðinu þá blasir við í mínum huga að lífeyrissjóðsleiðin er mun skynsamlegri. Það er ábyrgðarlaust hjá verkalýðshreyfingunni að horfa aðgerðalaus á ástandið sem er að teiknast upp á íslenskum vinnumarkaði, sem er orðinn blóðugur nú þegar.

Vilhjálmur segist ekki hafa svör við því hvers vegna hugmyndinni var hafnað og telur nokkuð ljóst að frekari uppsagnir blasi við.

„Við töpum enn frekari störfum með því að gera ekki neitt. Markmiðið með þessari aðgerð var fyrst og fremst að verja störfin.“

Vilhjálmur telur að ef verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hefðu náð saman um þessa tillögu hefði verið hægt að fá stjórnvöld með einhverjum hætti að málinu.

„Því miður ríkti ekki einhugur um þetta og þar af leiðandi fór sem fór. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðunni. Á mínu svæði höfum við þurft að ganga í gegnum gríðarlegar hremmingar á liðnum misserum með umtalsverðu falli starfa meðal annars í fiskvinnslunni hjá okkur. Þetta högg sem við erum að fá á okkur núna er mjög alvarlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert