Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur sætt sóttkví undanfarnar tvær vikur. Hann hefur unnið heiman frá sér en losnaði úr sóttkví í dag og nýtti fyrsta daginn á skrifstofunni til þess að friðlýsa háhitasvæði Gjástykkis gegn orkuvinnslu.
Frá þessu greinir Guðmundur Ingi á Facebook.
„Friðlýsingin markar tímamót í friðlýsingum á Íslandi því þetta er fyrsta háhitasvæðið í verndarflokki rammaáætlunar sem er friðlýst,“ skrifar Guðmundur.
„Þessi friðlýsing er hluti af sérstöku átaki í friðlýsingum sem ég setti af stað þegar ég varð ráðherra. Gjástykki er sjötta friðlýsingin sem ég geng frá og margar fleiri fram undan. Til dæmis Goðafoss og Geysir!“