„Beinlínis rangt“

Þórólfur á blaðamannafundinum í dag.
Þórólfur á blaðamannafundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vakti athygli á því að stjórnvöld á Íslandi hefðu ekki valið á milli annaðhvort skaðaminnkandi eða bælandi leiðar í baráttunni við faraldur kórónuveirunnar hér á landi.

„Mig langar aðeins að gera að umtalsefni — það hefur aðeins borið á því í fjölmiðlum og umræðunni núna undanfarið að það sé ekki alveg ljóst hvaða stefnu við erum að fylgja í sóttvörnum gegn þessum faraldri,“ sagði Þórólfur á blaðamannafundi almannavarna eftir hádegi í dag.

Benti hann á að einkum væru í þessu tilliti nefndar tvær leiðir, annars vegar leið bælingar eða einangrunar (e. suppression/containment) og hins vegar leið skaðaminnkunar (e. mitigation).

Útgöngubann og ferðatakmarkanir skili ekki miklu

Þórólfur benti á að leið bælingar fæli í sér „að greina hratt, einangra sjúka, setja útsetta í sóttkví, setja ákveðin fjarlægðarmörk, svokallað „social distancing“ milli fólks, samkomutakmarkanir, útgöngubann og ferðatakmarkanir“.

„Allt af þessu höfum við verið að gera frá byrjun, nema útgöngubann og ferðatakmarkanir, sem við höfum áður farið í gegnum að við teljum að muni ekki skila miklum árangri, nema kannski tefja faraldurinn eitthvað örlítið.“

Þórólfur taldi þá upp eiginleika skaðaminnkandi leiðar:

„Skaðaminnkandi aðgerð er aðgerð sem felur í sér að lágmarka skaðann af faraldrinum, hægja á honum. Sem felst þá einkum í að vernda viðkvæma hópa og undirbúa heilbrigðiskerfið sem best og svo ákveðnar samfélagsaðgerðir. En það er einmitt það líka sem við höfum verið að gera.

Haldi leiðbeiningum stjórnvalda til haga

Þannig að ég get sagt að við erum að nota báðar leiðir, ekki aðra hvora, við erum að nota báðar leiðir í þessari baráttu. Og allt tal um að við séum eingöngu að beita skaðaminnkandi aðgerð og stefna að því að 60 til 70% af samfélaginu muni sýkjast og eigi að sýkjast — það er beinlínis rangt.“

Þórólfur sagðist þá vilja halda áfram að hvetja alla til að halda til haga og fara eftir þeim leiðbeiningum sem stjórnvöld hefðu gefið út, og „hvetja alla til að standa saman í þessum vikum sem við eigum eftir, alla vega út aprílmánuð og náttúrlega lengur, eins og þurfa þykir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert