Íslendingur er í hópi um 2.700 ferðamnna sem boðað hafa hópmálsókn gegn ráðamönnum í Tíról í Austurríki. Þetta staðfestir Peter Kolba, framkvæmdastjóra austurrískra neytendasamtaka, í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá. Ferðamennirnir sýktust eftir að hafa dvalið á skíðasvæðinu í Ischgl eða nágrenni í febrúar og mars.
„Augu allra í Evrópu eru á Austurríki og hvernig yfirvöld þar ætla að bregðast við þessum ásökunum. Hagsmunir landsins eru í húfi og gagnsæi borgar sig,“ er haft eftir Kolba í tilkynningu sem austurrískir miðlar fjalla um. Kolba segir í samtali við mbl.is að fleiri Íslendingar bætist í hópinn á næstu dögum þar sem enn á eftir að vinna úr um 700 umsóknum sem samtökunum hafa borist.
Samkvæmt heimildum Aftonbladet eru 30 Danir, 17 Svíar og 14 Norðmenn meðal þeirra sem hyggjast sækja rétt sinn.
Ráðamenn í Tíról hafa verið gagnrýndir fyrir að bregðast of seint við og jafnvel hunsað viðvaranir, meðal annars þær sem komu frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Bærinn var skilgreindur hááhættusvæði af íslenskum yfirvöldum 5. mars vegna fjölda Íslendinga, og raunar fleiri Norðurlandabúa, sem greindust með kórónuveirusmit eftir að hafa verið þar á skíðum. Yfirvöld í Tíról hafa vísað því á bug að þau hafi ekki hlustað á íslensk yfirvöld.
Blaðamaður mbl.is ræddi við mann á áttræðisaldri í síðasta mánuði sem var um það bil sá tuttugasti sem greindist með kórónuveiruna á Íslandi. Hann segist hafa heyrt af hópmálsókninni en hann hafi ekki leitt hugann að því að sækja rétt sinn og það sama eigi við um fimmmenningana sem hann ferðaðist með.
Maðurinn er nokkuð viss um að hann hafi smitast af barþjóni á vinsæla skíðabarnum Kitzloch en nú er hafin sakamálarannsókn á því hvort staðurinn hafi reynt að leyna því að barþjóninn hefði greinst með veiruna í lok febrúar. Talið er að hann hafi smitað fjölda manns með því að blása í flautu sem hann bar um hálsinn til að komast að með drykki þegar barinn var þétt setinn.