Jóhann Ólafsson
„Það er sorglegt að menn taki þessa afstöðu þegar við þurfum að standa saman,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, um úrsagnir Ragnars Þórs Ingólfssonar, Vilhjálms Birgissonar og Hörpu Sævarsdóttur úr miðstjórn Alþýðusambands Íslands.
Ágreiningur hefur verið í miðstjórn ASÍ um aðgerðir vegna stöðu á vinnumarkaði vegna kórónuveirufaraldursins. Ragnar, Vilhjálmur og Harpa vildu að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði yrði skert tímabundið en því var hafnað og sögðu þau sig úr miðstjórninni í mótmælaskyni en þar á Finnbogi sæti.
Stjórn VR fundaði í gærkvöldi vegna málsins og segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, að einhugur sé í stjórninni vegna tillögu um tímabundið skert mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði.
Finnbogi ítrekar að honum þyki ákvörðun þremenninganna sorgleg og segir að við svona aðstæður, eins og uppi eru í þjóðfélaginu, þurfi fólk að snúa bökum saman.
Finnbogi segir að ákvörðun eins og þessa þurfi að taka á breiðari grundvelli og að miðstjórn ASÍ geti ekki ákveðið að taka réttindi af félagsfólki.
„Ég er á því að réttindi félagsmanna verði ekki skert,“ segir Finnbogi og bendir á að allar svona stórar ákvarðanir þurfi að ræða við félagsfólk.