Nái frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fram að ganga mun skapast yfirsýn yfir eignarhald hér á landi og stjórnvöld öðlast stýritæki til að stuðla að því að landnýting sé í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.
Katrín sagði síðasta sumar að breiður pólitískur vilji væri til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi. Það væri skýrt að ekki ætti að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu.
Félagið Sólstafir, í eigu breska auðkýfingsins Jims Ratcliffes, festi það sumar kaup á jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði. Katrín sagði þá að frumvarp um jarðakaup yrði lagt fram í vetur.
Í frumvarpinu eru undanþáguheimildir vegna skilyrða fyrir fasteignakaupum fyrir aðila utan EES skýrðar nánar en ákvæði núgildandi laga um það efni eru ekki sögð nægjanlega skýr. Gert er ráð fyrir að kaupverð eignar komi fram í þinglýstu afsali en kaupverð sé meðal annars forsenda ákvörðunar fasteignamats.
Lagt er til að landeignaskrá á vegum Þjóðskrár verði vettvangur fyrir samræmda opinbera skráningu á landupplýsingum. Einnig er sjónarmiðum um náttúruvernd, byggðaþróun og sjálfbærni gert hærra undir höfði í markmiðsákvæði jarðalaga.
Sett eru skilyrði um samþykki fyrir aðilaskiptum að landi í skilgreindum tilfellum þar sem aðili á tiltekna stærð af landi fyrir. Markmiðið er að stjórnvöld hafi tæki til að sporna gegn of mikilli samþjöppun í eignarhaldi lands. Gert ráð fyrir að þessi skylda eigi m.a. við ef kaupandi á fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 1.500 hektarar að stærð. Eigi kaupandi eða tengdir aðilar samanlagt 10.000 hektara eða meira skuli samþykki að jafnaði ekki veitt, nema sýnt sé fram á sérstök not fyrir landið.