„Mér finnst mjög gaman að geta talað við fólk,“ sagði Anna Hallgrímsdóttir sem býr á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð á Eskifirði. Hún átti myndsímtal við blaðamann í gegnum spjaldtölvu í gær. Íbúar Hulduhlíðar og Uppsala á Fáskrúðsfirði geta nú rætt við vini og ættingja og séð þá í mynd. Það léttir þeim lífið í heimsóknarbanninu.
„Ég fæ mörg símtöl og er búin að fá mörg í dag, norðan af Akureyri og héðan og þaðan,“ sagði Anna. Hún fæddist 7. ágúst 1917 og verður því 103 ára í sumar. Anna var á öðru ári þegar spánska veikin gekk árið 1918. Hún sagði að mikið hefði verið talað um þá slæmu sótt í hennar ungdæmi. En finnst henni kórónuveirusóttin sem nú geisar eitthvað jafnast á við það sem fólk sagði um spánsku veikina?
„Ég er nú kannski ekki manneskjan til að segja til um það, en ég gæti trúað því að þetta væri ekki ósvipað eftir því sem ég heyrði,“ sagði Anna. En hvað gerir hún fleira en að tala við fólk í tölvunni?
„Bara ekki neitt nema að hugsa um lífið eins og það er. Meira gerir maður nú ekki þegar maður er orðinn svona fullorðinn,“ sagði Anna. Hverju þakkar hún góða heilsu og það hvað hún ber aldurinn vel? „Það er eins og ég hef sagt áður; ég hef alltaf tekið inn lýsi og ég mæli eindregið með því,“ sagði Anna.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.