Sírenuvælið það eina sem heyrist

Sigurður Andri Hjörleifsson er einn þeirra Íslendinga sem búa á Spáni og eru ekki á leið heim þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Hann býr í borginni Elche vestan við Alicante þar sem hann stundar háskólanám. Strangt útgöngubann hefur verið í gildi á Spáni frá því um miðjan mars og það mun að öllum líkindum standa til 26. apríl, að minnsta kosti.

Spánn er meðal þeirra landa sem kórónuveirufaraldurinn hefur leikið einna verst. Rúmlega 117 þúsund smit hafa verið staðfest og tæplega ellefu þúsund hafa látist. Bara á síðasta sólarhring létust 932. Elche hefur þó sloppið vel að sögn Sigurðar. Í raun svo vel að spítalinn í borginni hefur verið að taka við sjúklingum frá spítölunum í kring, frá Alicante og Torrevieja sem eru að kikna undan álagi. Hann telur skýringuna meðal annars vera að það er lítið um ferðamenn í borginni og því ekki jafnmikið flæði þar í gegn eins og á svo mörgum stöðum. En fyrstu smitin sem komu upp í Elche voru í ferðamönnum frá Madríd sem ætluðu að eyða þar páskunum.

Sigurður segir mjög skrýtið að búa við algjört útgöngubann en hann hefur ofan af fyrir sér með ýmsum hætti. „Ég byrja minn morgun á því að fara niður að ánni og hlaupa og nota crossfittæki við ána. Svo fer ég í skólann og ég er bara heima í vernduðu umhverfi.“ Það er vissulega búið að loka skólanum, eins og öllu öðru á Spáni, en hann stundar fjarnám heima hjá sér.

„Þegar ég heyri í bíl, þá er það sjúkrabíll“

„Ég bý í miðbænum í Elche, rétt við ráðhúsið, og alla jafna er hérna er mikil umferð og mikið líf, sérstaklega næturlíf. Ég var alveg orðinn vanur borgarniðnum en hann er farinn. Það er þögn hérna. Það eina sem ég heyri er það sem veldur mér áhyggjum. Því þegar ég heyri í bíl, þá er það sjúkrabíll. Ég veit að það er miklu meiri umferð af sjúkrabílum en hefur verið. Það er verið að flytja hérna fólk á spítalann. Það er gert á forgangsljósum í lögreglufylgd.“

Göturnar í Elche er auðar, líkt og í flestum öðrum …
Göturnar í Elche er auðar, líkt og í flestum öðrum borgum Spánar.

Sírenuvælið er stöðug áminning um það hve alvarlegt ástandið er. Áminning um að fólk er að veikjast og deyja allt í kring. Hann segir þetta vera sjúkrabíla frá öðrum heilbrigðisumdæmum og því ljóst að verið sé að koma með sjúklinga annars staðar frá. „Að vera heima er kannski í sjálfu sér ekkert rosalegt. Ef það væri ekki fyrir sírenurnar það væri þetta allt í lagi, ég er alveg sjálfum mér nógur.“

Sigurður segir Spánverjana sem hann hefur rætt við líkja ástandinu við borgarastyrjöldina eða seinni heimsstyrjöldina. „Þá var útgöngubann en það var bara á nóttunni. Börnin fóru í skólann og búðir voru opnar á daginn. Þetta er held ég bara í eina skiptið sem útgöngubann er allan sólarhringinn.“

Stoppaður af lögreglu á leið á heilsugæsluna

Hann velti því fyrir sér hvernig útgöngubanninu yrði fylgt eftir, en það virðist ekki vera neitt mál fyrir Spánverjana. Það hlýða allir, enda er mikil virðing borin fyrir lögreglunni, og göturnar eru nánast auðar. Hann tók einmitt myndband í dag þegar hann gekk út á heilsugæslustöð um tómar götu Elche, en það fylgir með þessari frétt.

„Ég labbaði út til að fara á heilsugæsluna, var búinn að græja mig í hanska og með maska, en ég var stoppaður af lögreglunni. Og þeim var alveg sama hvort ég var að fara til læknis eða ekki. Ég mátti ekki vera þarna. Það eru stopppóstar á götum úti og lögreglan er með vakt á gatnamótum og þar sem umferðin er. Og þú mátt ekki vera þar, þeim er alveg sama hvaða erindi þú þarft að sinna. Ef þú þarft að fara til læknis verðurðu að fara í hliðargötur eða göngugötur, ekki vera á stórum almenningssvæðum.“

Á heilsugæslunni var þess rækilega gætt að hann kæmi ekki nálægt heilbrigðisstarfsfólki. „Ég varð að rétta fram skilríki, sjúkrakortið og annað slíkt inn í bás. Síðan var kallast á í tveggja metra fjarlægð.“

Sektað ef fólk getur ekki gert grein fyrir ferðum sínum 

Á leiðinni heim sá hann lögreglu hafa afskipti af mönnum sem stóðu í röð við verslun. Þeir voru spurðir hvað þeir væru að gera. „Þú ert bara handtekinn ef þú getur ekki gert almennilega grein fyrir þér. Það er gríðarleg sekt, ég held að hún sé 2.000 evrur.“

Þá varð hann líka vitni að því að lögreglan stoppaði mann sem var á gangi án þess að vera með innkaupapoka. Maðurinn sagðist vera á leið í apótek en hann var ekki með lyfseðil þannig að lögreglan bað hann að koma inn í lögreglubílinn og þeir myndu keyra hann í apótekið.

Fólk þarf líka að geta sýnt fram á það við lögreglu að hafa verið að kaupa þær vörur sem það er með í innkaupapokum, með því að framvísa kvittun. „Spánn er mjög effektíft þjóðfélag þegar það er búið að taka ákvörðun um eitthvað. Þess vegna sérðu tómar götur. Það þorir enginn að fara út.“

Klappað í tvær til þrjár mínútur á hverju kvöldi

Þá er búið að girða af öll almenningssvæði, útivistarsvæði og leiksvæði barna. Sigurður býr við ána sem rennur í gegnum borgina, en hún rennur ofan í gil þar sem er vinsæl hlaupaleið. Þar er búið að setja lögregluborða. „Það er búið að loka öllu og þegar maður pælir í þessu þá er þetta rosalega sérstakt. Þeir hafa fyrir því að koma með borða og loka.“

En það er ekki bara borin virðing fyrir lögreglunni á Spáni heldur líka heilbrigðisstarfsfólkinu sem stendur vaktina í hringiðu faraldursins. Á hverju kvöldi klukkan átta flykkist fólk út á svalir og klappar til að sýna  heilbrigðisstarfsfólkinu þakklætisvott. „Það stendur alveg í tvær til þrjár mínútur. Þannig að samstaðan er gríðarlega mikil.“

Sigurður segist vera sjálfum sér nógur en sírenuvælið veldur honum …
Sigurður segist vera sjálfum sér nógur en sírenuvælið veldur honum áhyggjum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert