Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli sem héraðssaksóknari höfðaði í nóvember í fyrra gegn Skúla Gunnar Sigfússyni, Guðmundi Hjaltasyni og Guðmundi Sigurðssyni fyrir skilasvik í aðdraganda þess að félagið EK1923 var tekið til gjaldþrotaskipta.
„Málið var höfðað í kjölfar kæru umdeilds skiptastjóra þrotabúsins, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, en í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að Sveinn Andri hafi ekki getað upp á sitt eindæmi lagt fram kæru í málinu. Lagaskilyrði fyrir útgáfu ákærunnar voru því ekki til staðar,“ segir í yfirlýsingu Skúla Gunnars, sem er jafnan kenndur við Subway, vegna dómsins.
Þar bendir hann á að allur sakarkostnaður í málinu hafi verið felldur á ríkissjóð, sem og þóknun verjenda sem var ákvörðuð tæplega 10 milljónir króna.
„Þetta er í annað sinn á fáum vikum sem í ljós koma handarbaksvinnubrögð Sveins Andra sem skiptastjóra þrotabúsins, en í síðasta mánuði tapaði þrotabúið í öllum meginatriðum máli gegn Sjöstjörnunni ehf., félags í eigu undirritaðs,“ segir Skúli og bætir við að Sveinn Andri hafi á sama tíma tekið þóknun út úr þrotabúinu sem nemur á annað hundrað milljónum króna.
„Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í vetur að Sveini Andra bæri að endurgreiða þá þóknun að fullu. Beðið er úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort víkja beri Sveini Andra frá sem skiptastjóra. Sveinn Andri hefur tafið það dómsmál með því að kæra dómara málsins til nefndar um dómarastörf. Auk þess hefur Sveinn Andri krafist þess að dómarinn verði úrskurðaður vanhæfur, enda hljóti honum að vera persónulega í nöp við sig þar sem hann hefur ekki úrskurðað í samræmi við kröfur Sveins Andra,“ segir hann einnig.