Vísbendingar um nýtt kvikuinnskot

Kortið sýnir staðsetningu þeirra kvikuinnskota sem talin eru hafa orðið …
Kortið sýnir staðsetningu þeirra kvikuinnskota sem talin eru hafa orðið á árinu á Reykjanesskaga. Þetta eru bráðabirgðaniðurstöður og líkönin eru einfölduð, en verða uppfærð eftir því sem gögn berast. Á kortinu er tilgreint hvenær innskotin mynduðust. Innskotið á Reykjanesi er á 8-13 km dýpi en hin á um 3-4 km dýpi. Teikning/Veðurstofan

Vísbendingar eru um nýtt kvikuinnskot vestast á Reykjanesskaganum, undir Rauðhólum og Sýrfelli. GPS-mælingar ásamst nánari úrvinnslu og líkanreikningum á fyrirliggjandi gögnum gefa þetta til kynna.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að gögn, sem safnað hefur verið í samstarfi Jarðvísindastofnunar Háskólans, ÍSORs, HS-orku og Veðurstofunnar eftir að virknin við fjallið Þorbjörn nærri Grindavík hófst, staðfesti þetta.

„Gögnin sem við höfum unnið úr gefa til kynna að kvikuinnskotið hafi átt sér stað frá því um miðjan febrúar og fram í fyrstu vikuna í mars. Þessi mynd skýrðist betur þegar við fengum gögn úr GPS-mælingum Háskólans, sem ekki eru beintengdar okkar vöktunarkerfi og það gerir það að verkum að við greinum þetta ekki fyrr en nú,“ er haft eftir Kristínu Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar, á vef Veðurstofunnar.

Líkan staðsetur kvikuinnskotið á um 8-13 km dýpi, sem er líklega við botn jarðskorpunnar og á talsvert meira dýpi en kvikuinnskotin tvö við Þorbjörn.

Þriðja kvikuinnskotið frá áramótum

„Þetta kvikuinnskot undir Sýrfelli er þriðja kvikuinnskotið sem við greinum á Reykjanesskaganum frá því um áramótin. Tilvist þessa kvikuinnskots styður ályktun vísindaráðs almannavarna frá því um daginn um að það sé nauðsynlegt að skoða virknina á Reykjanesskaganum heildstætt, en ekki einungis út frá staðbundinni virkni í kringum Svartsengi og Reykjanes,“ segir Kristín.

Hún ítrekar að það sé of snemmt á þessu stigi að draga neinar sterkar ályktanir og bendir á nauðsyn þess að skoða núverandi virkni í sögulegu samhengi við aðra þekkta atburði á Reykjanesskaganum

Tekið er fram á vef Veðurstofunnar að jarðvísindamenn muni halda áfram að fylgjast náið með gangi mála og vinna frekar úr þeim gögnum sem safnast hafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka