„Rétt fyrir kosningar kom í ljós, að andstæðingar yðar höfðu óhreint mél í pokanum, en þér hreinan skjöld. Yður er heimilt að svipta hvern andstöðuflokk einu þingsæti hvern.“
Þessi fyrirmæli er að finna í Kjördæmaspilinu, sem mun hafa komið á markað hér á landi á því herrans ári 1959. Það var þremur kjörtímabilum áður en almættið skipti mér inn á í þessum undarlega leik sem við köllum líf en spilið komst nokkuð óvænt í mína vörslu á síðasta ári. Það eintak hefur að vísu aldrei verið spilað, spilakubbarnir eru enn þá í innsigluðum plastpoka, en þetta er líklega ekki verri tími en hver annar til að rjúfa innsiglið og láta á spilið reyna. Eru menn ekki upp til hópa að dusta rykið af gömlum borðspilum við þær aðstæður sem nú eru uppi? Ófært að láta sér leiðast heima.
Í reglum fyrir Kjördæmaspilið segir: „Fjórir geta tekið þátt í Kjördæmaspilinu og leikur hver fyrir sinn lista. Bezt er að draga um hver spili fyrir hvaða lista.“
Þetta voru A-listi Alþýðuflokks, B-listi Framsókarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks og G-listi Alþýðubandalagsins. Líklega vesen að endurútgefa spilið núna enda þyrftu listarnir og þar með þátttakendur að vera átta. Það myndi æra óstöðugan.
Nánar er fjallað um Kjördæmaspilið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.